Fara í efni
Mannlíf

Þór/KA með fyrsta heimasigurinn í tíu vikur

FH-ingar töldu sig hafa skorað upp úr miðjum fyrri hálfleiknum þegar Snædís María Jörundsdóttir skallaði í markið af stuttu færi eftir hornspyrnu. Dómari leiksins dæmdi markið af, taldi liðsfélaga Snædísar hafa brotið á Shelby Money í marki Þórs/KA. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason

Þór/KA sigraði FH í dag í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Sandra María Jessen skoraði eina markið í upphafi seinni hálfleiks og tryggði liðinu fyrsta heimasigurinn frá 21. júní þegar stelpurnar unnu Fylki 3-1. Þór/KA er áfram í 3. sæti deildarinnar.

Sterkur vindur setti svip sinn á leikinn, en færin litu þó engu að síður dagsins ljós á báða bóga. Markverðirnir, Shelby Money og Aldís Guðlaugsdóttir, björguðu báðar mjög vel og sáu til þess að markalaust var í leikhléi. Upp úr miðjum fyrri hálfleik töldu FH-ingar sig reyndar hafa skorað þegar Snædís María Jörundsdóttir skallaði í markið af stuttu færi eftir hornspyrnu, en dómari leiksins taldi að brotið hafi verið á Shelby Money í marki Þórs/KA og dæmdi markið af.

Snemma í seinni hálfleiknum átti varnarmaður FH slaka sendingu þegar liðið reyndi að spila út frá marki gegn pressu leikmanna Þórs/KA. Lara Ivanuša fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi FH, renndi honum inn í teiginn á Söndru Maríu Jessen sem skoraði af öryggi. Þetta var alls ekki í fyrsta skipti sem hún skorar hjá FH á þessu ári heldur það sjöunda!

Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir ágæt færi og fyrsti heimasigur Þórs/KA í deildinni í rúmar tíu vikur staðreynd. Sannarlega langþráð þrjú stig á heimavelli.

Smellið hér til að lesa leikskýrsluna og hér til að skoða stöðuna í deildinni.

Þór/KA styrkti með sigrinum stöðu sína í 3. sætinu, fór í 33 stig, en Víkingur er með 29 stig og FH 25. Þór/KA tekur næst á móti Íslandsmeisturum Vals föstudaginn 13. september.