Fara í efni
Mannlíf

Þór Íslandsmeistari öldunga í skák

Þór Valtýsson, Íslandsmeistari öldunga í skák.

Þór Valtýsson, fyrrum kennari við Oddeyrarskóla, Gagnfræðaskólann á Akureyri og Brekkuskóla, varð Íslandsmeistari öldunga í skák um liðna helgi. Þór, sem er tæplega áttræður, hefur verið búsettur á borgarhorninu síðustu árin en teflir enn fyrir Skákfélag Akureyrar.

Lokaumferðin á Íslandsmóti öldunga (65+) var æsispennandi eins og við mátti búast. Fyrir umferðina voru þrír skákmenn efstir og jafnir og óhætt að segja að allt gæti gerst; Þór, Ólafur Kristjánsson, einnig úr Skákfélagi Akureyrar, og Björgvin Víglundsson voru allir með 3,5 vinninga af 5 mögulegum og fast á hæla þeirra komu Haraldur Haraldsson, Skákfélagi Akureyrar, og Júlíus Friðjónsson með 3 vinninga.

Júlíus sigraði Ólaf Kristjánsson í skákinni sem lauk fyrst og þar með var ljóst að Ólafur var úr leik í baráttunni og Júlíus raunar einnig vegna úrslita fyrr á mótinu.

„Þór Valtýsson og Haraldur Haraldsson [einnig Skákfélagi Akureyrar] komu „næstir í mark“. Þeirra skák lauk með jafntefli og Þór og Júlíus því orðnir jafnir að vinningum en Þór betri á oddastigum,“ segir á vef Skáksambands Íslands.

„Áskell Örn Kárason [Skákfélagi Akureyrar] stýrði hvítu gegn Björgvini Víglundssyni. Björgvin var líklega með betra tafl en taldi sig vinna á oddastigum og bauð því jafntefli sem Áskell þáði. Útreikningar Björgvins voru hinsvegar ekki réttir þar sem hann gleymdi að taka með í reikninginn að Bragi Halldórsson hafði ekki klárað sína skák. Þar sem Þór lagði Braga var sú skák lykillinn að sigrinum. Ef Bragi myndi vinna, þá hefði Þór betur á oddastigum. Á endanum hafði Bragi betur í síðustu skák mótsins og þau úrslit þýddu að Þór kom fyrstur í mark, hafði 0,5 stigum meira á oddastigum í baráttunni við Björgvin. Tæpara gat það varla verið!“