Fara í efni
Mannlíf

„Þetta var ekki alveg minn dagur“

Eyfirðingurinn, bóndinn og eldsmiðurinn Beate Stormo keppti á dögunum á Norðurlandameistaramótinu í eldsmíði sem fram fór á Akranesi. Beate hafnaði í 3. sæti í flokki meistara; þrátt fyrir afar erfiðan dag í smiðjunni.

Keppni í eldsmíði er alltaf haldin á Akranesi vegna þess að á safnasvæðinu í Görðum er smiðjan góða sem er höfuðból félagsskaparins Íslenskir eldsmiðir. Keppendur voru frá fimm löndum; Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi og keppt var í þremur flokkum: Byrjendaflokki, sveinsflokki og meistaraflokki.

Allir keppendur höfðu fjórar klukkustundir til að smíða akkeri. Þau völdu efnið sjálf, járnstöng sem er formlaus, og réðu einnig stærð smíðagripanna; en því þykkra sem járnið er því meira afl þarf til að fletja það út.

„Fjórir tímar eru brandari“ sagði Beate í samtali við Akureyri.net. Ef einhver bæði hana að smíða svona grip myndi hún ætla sér viku í verkið. Það mátti því ekki mikið út af bera.

Dómarar gera mismunandi kröfur til flokka og meistaraflokkurinn þurfti meðal annars að vera með slegið gat, 90 gráðu horn og eldsmíðasuðu. Þau þurftu jafnframt að framvísa teikningu með málum af sínum væntanlega smíðagrip.

Henti frá sér járninu og byrjaði upp á nýtt

„Þetta var ekki alveg minn dagur“, segir hún. „Járnið lét illa frá fyrsta hamarshöggi og samsuðan misheppnaðist í fyrstu tilraun. Og reyna að slá út gatið gekk enn verr. Ég henti járninu frá mér og byrjaði aftur. Á akkerum er pinni sem gengur í gegn þversum á akkerið svo það leggist ekki. Af því ég var orðin pínu stressuð þá setti ég hann beinan, þannig að akkerið var alveg flatt. Því var ekki hægt að breyta svo ég hentist í að smíða hafmeyju. Mótaði fyrir haus og reyndi að gera smá hár og fór svo að reyna að gera búkinn og sporðinn en þá datt hausinn af!“

Á þessum tímapunkti hugleiddi Beate að gefast upp en ákvað svo að halda áfram. „Þetta var hvort eð er eiginlega bara orðið fyndið“, segir Beate. Hún kláraði því að smíða hauslausa hafmeyju sem ríghélt sér á akkerinu. Fyrir þessa smíði fékk hún mjög jákvæðar athugasemdir: Að fiskurinn væri rosalega flottur og að höfrungurinn væri mjög sætur!

Beate segir að þarna hafi hún keppt við flinka atvinnumenn. Akkerin þeirra voru vel smíðuð og tæknilega vel útfærð. „Þegar gengur illa að búa eitthvað til og maður nær samt 3. sæti þá hefur maður mikla möguleika á að ganga betur á næsta móti“, segir Beate að lokum.

Akkerið góða sem Beate smíðaði í keppninni.