Fara í efni
Mannlíf

„Þetta er allt saman afa að kenna!“

Þorsteinn Pétursson og afastrákurinn Samúel Örn Pétursson við Húna II. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Skemmtiferðaskip við bryggju á Akureyri er orðin hversdagsleg sjón en hins vegar er ekki algengt að Akureyringur sé í hópi skipverja. Einn slíkur sigldi þó til heimahafnar á dögunum; Samúel Örn Pétursson er einn stýrimanna á þýska skipinu Hanseatic Spirit um þessar mundir.

Samúel Örn er sonur Péturs Björgvins Þorsteinssonar Péturssonar, Steina Pje, fyrrverandi lögregluþjóns. Móðir hans er þýsk, Regina B. Þorsteinsson og föðuramman Snjólaug Aðalsteinsdóttir.

Hann sat við morgunverðarborð í Húna II ásamt afa sínum og fleirum úr áhöfn Húna þegar blaðamaður mætti til leiks.  Samúel Örn kom til gamla heimabæjarins og skip hans hélt ekki brott fyrr en degi síðar. Afi hans er einn þeirra sem ber ábyrgð á því að Húni, sá fallegi eikarbátur, er vel varðveittur, og Steini Pje ber í raun líka ábyrgð á því hvaða braut afastrákurinn fetaði í lífinu.

Gerði úr honum sjómann!

„Pabbi hans er djákni og vonaðist til að strákurinn yrði prestur en ég gerði úr honum sjómann!“ segir Steini og brosir, í þann mund er blaðamaður sporðrennir fyrstu dýrindis pönnukökunni sem Fjóla Stefánsdóttir bauð upp á. Steini lærði á sínum tíma skipasmíði en starfaði í áratugi í lögreglunni.

„Afi byrjaði að draga mig til að skrapa og mála trilluna Hafbjörgu þegar ég var strákur. Við fórum þangað alla laugardaga,“ segir Samúel Örn. „Árið 2005, þegar ég var 12 ára, kom Húni norður og lá fyrst við bryggju í Krossanesi. Við bjuggum í Fögrusíðu, ég hjólaði daglega þaðan til að athuga með bátinn og var mikið með afa.“

Strax þá var teningunum í raun kastað. Aðeins 15 ára fór Samúel á fyrsta námskeiðið í Slysavarnaskóla sjómanna, ásamt afa sinum, Inga bróður hans og fleirum úr áhöfn Húna, þegar Sæbjörgin kom norður.

Morgunkaffi um borð í Húna II með hluta áhafnarinnar. Frá vinstri: Baldur Friðleifsson, Fjóla Stefánsdóttir, Samúel Örn Pétursson, Valur Hólm Sigurjónsson og Þorsteinn Pétursson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Þetta er allt saman afa að kenna,“ segir Samúel Örn og hlær. Eftir að hann kláraði grunnskóla 2009 hóf ungi maðurinn nám í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri, tók sér reyndar frí eftir þrjú ár og fór til Þýskalands þar sem hann starfaði í eitt ár sem sjálfboðaliði á vegum KFUM og K en tók upp þráðinn síðar. Foreldrar hans fóru til náms í Þýskalandi skömmu eftir að Samúel hélt utan, hann dvaldi hjá þeim um tíma eftir starfið fyrir kristilegu samtökin en þaðan lá leiðin til Húsavíkur þar sem Samúel var háseti á hvalaskoðunarbát Norðursiglingar.

Háseti á kanadísku skólaskipi

Eftir tímann á Húsavík fór Samúel í Stýrimannaskólann í Reykjavík, útskrifaðist þaðan 2017, starfaði um tíma á ný hjá Norðursiglingu, var stuttan tíma á fraktskipi Samskipa, síðan hálft ár á gámaskipi þýsks fyrirtækis og í kjölfar þess tók við fjögurra mánaða ævintýri á skútu. „Það var þriggja mastra skonnorta, hefðbundinn kanadískur skóli fyrir 14 til 19 ára nema hvað hann var úti á sjó; krakkarnir voru í venjulegu námi en lærðu líka að sigla.“

Ævintýrið kom þannig til að Samúel var að flækjast á netinu um borð í gámaskipinu, sá að verið var að leita að háseta á skútuna og ákvað að sækja um – þess fullviss að hann fengi ekki pláss. Það fór þó á annan veg.

„Ég fór um borð í Amsterdam, við sigldum um Miðjarðarhaf, þaðan niður til Dakar [höfuðborgar Senegal á vesturstönd Afríku] og áfram til Suður-Ameríku. Ég fór frá borði í Surinam en skútan hélt áfram til Evrópu.“ Hann var á skútunni fjóra mánuði, hafði mjög gaman af og segist myndu vera til í að endurtaka ævintýrið – „ef það væri betur borgað!“

Lýkur senn námi

Samúel Örn lýkur senn bachelor námi í skipstjórn og logistik, sem kalla mætti flutningafræði. Hann lauk á sínum tíma 4. stigs farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum og segist geta orðið skipstjóri hvar sem er í heiminum með slíkt próf en ákvað að nema einnig í Þýskalandi til að standa enn betur að vígi þar í landi. Mikilvægt er, segir hann, að kunna skil á öllum tækniatriðum á því góða máli, þýskunni. 

Námið er þrjú ár, þar af fyrsta önnin og sú síðasta úti á sjó. Síðasta önnin stendur nú yfir og þess því ekki langt að bíða að stýrimaðurinn Samúel Örn, jafnvel skipstjórinn, sigli um heimsins höf; stýri jafnvel skemmtiferðaskipi. Næsta víst er að Fjóla býður upp á pönnukökur í Húna ef kafteinn Pétursson siglir til hafnar á Akureyri.

Þorsteinn Pétursson og Samúel Örn Pétursson við Hanseatic Spirit þegar skipið lá við Tangabryggju á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.