Fara í efni
Mannlíf

Þakklát þeim sem björguðu lífi mínu

Birna Baldursdóttir, íþróttakona og framhaldsskólakennari, lenti í mjög alvarlegu slysi á rafhjólahlaupi fyrir tæpum tveimur vikum. Hún datt á hjólinu um miðja nótt, á ferð heim til sín úr partíi í öðrum bæjarhluta, rotaðist og fannst meðvitundarlaus.

Hún kinnbeinsbrotnaði og höfuðkúpubrotnaði við hægra gagnauga. Birna var flutt á á sjúkrahús þar sem hún fékk flogakast vegna heilablæðingar, og þaðan á gjörgæsludeild. Birna segir í raun ótrúlegt að hún skuli ekki hafa slasast á fótum og handleggjum.

Birna ræddi við Akureyri.net á heimilinu sínu í gær. Hér að neðan er seinni hluti viðtalsins.

Birna lýsir því að henni hafi verið órótt að komast ekki í vinnuna, en hún átti að fara að þjálfa á þriðjudeginum eftir verslunarmannahelgina. Hún sendi kúnnunum skilaboð á mánudeginum, en kveðst þó ekki muna eftir að hafa gert það. „Ég var ekkert búin að heyra í vinkonum mínum og þær fréttu þetta bara í gegnum kúnnana. Vinkonurnar höfðu áhyggjur af því hvort hún hefði hlotið heilaskemmdir því sum skilaboðin fyrstu dagana voru mjög skrýtin.

Fram undan er þolinmæðisverk fyrir Birnu sem flestir þekkja sem kraftmikla konu með mörg járn í eldinum. Hún þarf að taka því rólega í nokkrar vikur og segir lítið hægt að fullyrða um bata enda sé mjög mismunandi hve lengi fólk er að ná sér eftir svona slys og hve fljótt það getur byrjað að framkvæma hin ýmsu verk. En hún fer sér hægt núna og þarf að passa sig. „Já, ég er mjög hæg. Ég þarf að passa púlsinn og að blóðþrýstingurinn sé réttur. Ég er búin að lesa aðeins um þetta, hvað er gott að gera.“ Hún finnur fyrir ýmsum eftirköstum eins og áður kom fram, en sem íþróttakonu finnst henni mjög skrýtið að geta til dæmis ekki hoppað eða snúið sér í hring og þurfa að fara mjög varlega í sturtunni. „Ég labbaði kílómetra í gær og var 50 mínútur að því,“ segir hún til að leggja áherslu á breytinguna.

Sjúkraþjálfarinn sem annaðist hana á deildinni sagði henni að gera það sem hún geti. Ef hún geti ekki eitthvað þá bara viti hún það. „Ég ætla að prófa mig áfram, ef ég passa púlsinn þá líður mér bara vel. Ég ætla að setjast niður og setja mér markmið. Ég vil líka hugsa um fólkið í kringum mig. Að vera ekki líka að stressa það upp,“ segir Birna.

Fékk æðislegan kennara í sinn stað

Birna er bæði einkaþjálfari og kennari við íþróttabraut Verkmenntaskólans á Akureyri. Henni líður að eigin sögn eins og hún gæti mætt í vinnu í næstu viku. „Ég verð í fríi núna, þeir sögðu sex vikur, en ef ég er tilbúin að fara og prófa er ég alveg til í það.“ Það gladdi hana að strax fannst mjög góð kona í hennar stað í íþróttakennsluna, Hólmfríður Jóhannsdóttir. „Æðislegur kennari, með reynslu úr MA,“ segir Birna um Hoffu.

Það eru hins vegar alls konar læti í kringum Birnu þegar hún er á fullu í vinnu og hún segist örlítið hrædd um hvað gerist þegar hún mætir aftur, ef til vill fyrr en skynsamlegt er. „Ég er á fullu í vinnunni, með tónlist og hreyfingu, tala mjög mikið og mér er sagt að allt svona áreiti sé erfitt.“ Hún hefur lítið verið í tölvunni og hefur ekkert horft á sjónvarp, aðeins gripið í símann til að svara skilaboðum, sem hafa verið ótalmörg.

„Ég hef mestar áhyggjur af að þegar ég held að ég sé tilbúin þá fari ég inn í þetta og sé kannski ekki tilbúin.“

Þakklát þeim sem björguðu lífi hennar

Birna leggur líka mikla áherslu á þakklæti í garð þess fólks sem bjargaði lífi hennar. Vegfarendur komu að henni þar sem hún lá í blóði sínu á gangstétt ekki langt frá lögreglustöðinni. Hún hefur velt fyrir sér hvaða fólk þetta er og fær væntanlega að vita það þegar fram líða stundir. Hún er að minnsta kosti alveg á því að hún vilji hitta þetta fólk eða komast í samband við það. Athugun hjá lögreglunni sýnir reyndar að slysið sést ekki í öryggismyndavélum á lögreglustöðinni. Þakklætið er henni efst í huga. „Ég á þessu starfsfólki líf mitt að launa, hvort sem það er lögreglan, sjúkrflutningar, fólkið sem fann mig eða allir þessir læknar og hjúkrunarfræðingar sem vinna á Sjúkrahúsinu,“ segir Birna og lýsir mikilli aðdáun á manngæsku og fagmennsku allra sem hafa komið að málinu.

Birna á fundi hjá Íþróttabandalagi Akureyrar. Hún er varaformaður bandalagsins. 

Aldrei aftur!

Hvernig hugsarðu þetta lengra fram í tímann?

„Aldrei aftur. Eins og ég segi, við hljótum að læra af þessu. Þetta er eitthvað sem maður á ekki að vera að gera, af því að maður veit að þetta er rangt, þetta er ekki í boði. Þetta er bara svo asnaleg ákvörðun. Þess vegna langar mig svo að vita af hverju gerði ég þetta, því að ég hef aldrei gert þetta. Kannski bara af því að ég nennti ekki að labba heim, en samt var gott veður. Ég vissi samt að það eru svo margir sem hafa lent í þessu,“ segir Birna. Hún hefur fengið fjölda skilaboða og pósta, bæði frá fólki sem hún þekki og þekkir ekki, fólki sem hefur lent í alls konar álíka slysum.

„Þetta fólk sem ég er með í kringum mig, það er yndislegt. Allir búnir að senda og koma og hringja, en ég kannski næ ekki að svara öllum. En það er æðislegt því auðvitað fer andlega hliðin aðeins til baka eftir þetta allt saman. Hún er samt bara fín,“ segir Birna, en býst við að það geti komið bakslög og nefnir sem dæmi þegar hún fór út í göngutúr í gær og grét þá aðeins, „bara af því að ég var eitthvað lítil í mér. Mér fannst óþægilegt að fólk væri að sjá mig, af hverju á ég að geta verið úti að labba núna. Þetta var bara eitthvað svo skrýtið,“ segir hún, en að loknu spjallinu var hún á leið á fótboltaleik til að fylgjast með syninum. „Ég ætla á fótboltaleik. Ég hef ekki hitt neitt af þessu fólki, en það er allt í lagi. Auðvitað er fólk að stoppa mig þegar ég fór út með mömmu, allir að knúsa mig og líka ókunnugt fólk. Það er bara yndislegt. Það er yndislegt að vera á lífi. Og vonandi að ég geti verið í íþróttum áfram, ég veit ekki hvað ég geri ef ég get það ekki. Ég er reyndar að missa af golfvertíðinni, ég hef verið svolítið í golfi í sumar, er að reyna að læra það. En það kemur sumar eftir þetta sumar.“