„Það er skemmtilegt að koma svolítið á óvart“
Fyrstu helgina í desember opnaði Leyni, glænýr bar á jarðhæð Hafnarstrætis 95. Vikar Mar Valsson, myndlistamaður og aðalvert á barnum, tók á móti blaðamanni og sýndi nýja staðinn sem er í rauninni bæði bar og tónleikastaður. Fyrstu tónleikarnir á Leyni verða haldnir á morgun, laugardag, þegar Pitenz og Þorsteinn Kári stíga á glænýtt sviðið í innri sal staðarins.
„Mér finnst gaman að segja að þessi nýji bar sé útibú frá Leynibarnum mínum á Hjalteyri,“ segir Vikar, sem er búsettur á Hjalteyri og starfar þar við myndlist og sauðfjárbúskap, en Leynibarinn er í rauninni kaffistofan á vinnustofu hans og ekki opinn eða í eiginlegum rekstri.

Það kom á daginn að það er ekki mikið upp úr því að hafa, að reka bar á Hjalteyri sem er aldrei opinn, þannig að þegar Vikar tók eftir að húsnæðið á jarðhæð Hafnarstrætis 95 væri laust, datt honum í hug að færa þessa hugmynd inn í aðgengilegra rekstrarumhverfi. Mynd: RH

Birtan er dempuð og húsgögn og munir frá ólíkum tímum veita hlýlegan blæ. Myndin er tekin frá innganginum, en dyrnar hægra megin við barinn opnast inn í innri salinn. Mynd: RH
Tóku allt húsnæðið rækilega í gegn
„Ég var að vinna á Götubarnum lengi, hef verið í veitingabransanum, rak til dæmis Eyri á Hjalteyri og veitingastaðinn í Bjórböðunum um tíma,“ segir Vikar, en hann og góðir vinir stukku á tækifærið og á þremur mánuðum og þremur dögum tóku þeir allt húsnæðið í gegn. Það er varla hægt að sjá fyrir sér lengur apótekið sem var þar áður.
„Ég fékk hjálp frá Teiknistofunni Stiku, til þess að teikna upp rýmið fyrir mig og fá hugmyndir að því hvernig við gætum nýtt það sem best,“ segir Vikar, en húsnæðið er í raun miklu stærra en nokkurntíman var sýnilegt almennum viðskiptavinum í Apótekaranum. „Allt í allt er þetta um 500 fermetrar, og ég er mjög ánægður með teikningarnar frá Stiku, sem buðu bæði upp á þægilegt rými fyrir gesti, sem og fyrir starfsfólkið.“ Flennistórt rými er fyrir barþjónana til þess að athafna sig, sem er mikill lúxus.
Hefur áhuga á öllu gömlu
„Ég hef mikinn áhuga á því að búa til eitthvað umhverfi eða stemningu, og að einhverju leyti er þetta líka afsökun fyrir mig til þess að geta safnað dóti og drasli,“ segir Vikar, en hann hefur mikinn áhuga á gömlu dóti. Áhuginn virðist ekki takmarkast við neitt sérstakt, en sem dæmi hafa Vikari áskotnast ansi fyrirferðarmikil flugsæti úr gamalli flugvél. Svo hefur hann fengið myndir af flugvélinni og ætlar að hengja upp hjá sætunum.

Flugsætin góðu. Hér er hægt að sitja og fara á flug í spjallinu með góðum vinum. Myndir: RH
Hefur engar áhyggjur af skorti á hlutum
„Söfnunaráráttan mín er í raun rosaleg, en leynibarinn á Hjalteyri er gjörsamlega fullur af gömlu dóti,“ segir Vikar. „Fyrst ætlaði ég að fara að flytja einhverja hluti hingað til að hafa á nýja barnum, en hætti fljótt við það vegna þess að ég veit að ég verð enga stund að finna meira. Mér finnst líka svolítið skemmtilegt að leyfa hlutunum að þróast á náttúrulegan hátt, það verður gaman að sjá hvernig hér verður eftir nokkur ár.“
Náðu að koma mörgum á óvart
Fyrstu vikurnar eftir opnun, segir Vikar að það hafi alveg borið á því, að fólk hafi ekki vitað af staðnum. „Við græjuðum þetta í leyni, svona í anda staðarins, með lokað fyrir alla glugga. Það er skemmtileg tilhugsun, að koma svolítið á óvart,“ segir hann. „Mér finnst við fara mjög vel af stað, en ég ákvað strax að hafa opið frá kl. 13, og vera þá til staðar fyrir gesti sem vilja bara fá sér kaffi eða drykk snemma dags. Við sjáum til dæmis mikið af Bretum, sem ég geri ráð fyrir að komi með beina fluginu í bæinn. Þeim finnst gott að geta sest inn á barinn snemma.“ Opnunartími Leyni er 13:00-01:00 á virkum dögum og sunnudögum, og 13:00-04:00 á föstudögum og laugardögum.
„Það eru mjög margir sem trúðu ekki á þessa opnun frá kl 13:00 á stað sem býður ekki upp á mat, bara drykk,“ segir Vikar. „En það hefur sýnt sig að það er alveg grundvöllur fyrir þessari viðbót. Við gleymum því kannski stundum, að þegar við erum í fríi erlendis, þá förum við oft snemma á barinn. Ég viðurkenni samt að dagtraffíkin hefur alveg komið mér á óvart. Ég ákvað eiginlega bara að opna svona snemma af því að ég er sjálfur að koma svona snemma og er að brasa í allskonar.“

Eins og Vikar hefur hugsað sér að tónleikasalurinn gæti verið stökkpallur fyrir ungt og efnilegt tónlistarfólk að norðan, er hann með listaverk á veggjunum eftir frændurna og Akureyringana Loga Gautason (t.v) og Úlf Logason (t.h). Myndir: RH
Verða vonandi viðburðir hverja helgi
Tónleikasalurinn var kláraður í vikunni, en hugmyndin var fyrst að innri salurinn yrði nýttur sem hluti barsins. „Nú er ég eiginlega kominn á það að hann fái frekar að vera sinn eigin staður, sem viðburðarsalur. Hann er í skemmtilegri stærð, en tekur sirka 80 manns á tónleika, sem er bil sem hefur vantað, held ég. Það verður möguleiki á því að hafa bæði sitjandi og standandi tónleika, eftir því sem hentar hverju sinni. Ég er að vona að hér verði grundvöllur fyrir grasrótina til dæmis, að koma fram. Vonandi verða bara reglulegir viðburðir og eitthvað að gerast flestar helgar. Ég geri svo líka ráð fyrir að leigja hann út fyrir einkaviðburði,“ segir Vikar.
„Ég vil halda því þannig, að fólk geti gengið út frá því vísu að koma á Leyni og upplifa svipaða orku og stemningu,“ segir Vikar. „Staðurinn á að vera rólegur og huggulegur í fremri salnum, þó hann breytist reyndar í sama dýragarðinn og allir hinir staðirnir á kvöldin um helgar. Mér finnst það svolítið skemmtilegt, að ná að vera á þessum tveimur pólum án þess að þeir séu að krossa mikið.“
Að lokum minnir Vikar á að það verður frítt á fyrstu tónleikana á innri bar Leyni, á morgun laugardag. Hann segir að það verði eitthvað misjafnt, hvort það muni vera aðgangseyrir eða ekki.