Fara í efni
Mannlíf

Takk innilega, Akureyringar!

Fjölskyldan á Akureyri í síðustu viku. Fremst Sabine, Dario með „Akureyringinn“ Vital og Alegra - stolt með sigurlaunin frá Íslandsmótinu í kænusiglingum á Pollinum. Fyrir aftan eru Noé, með bronspeninginn sinn, og Mia. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kunnugleg skúta lá við flotbryggjuna neðan við Hof í síðustu viku. Þar voru á ferð svissnesku hjónin Sabine og Dario Schwörer ásamt fjórum börnum sínum af sex. Tvö þau elstu voru farin til Sviss.

Mörgum er án efa í fersku minni þegar skúta fjölskyldunnar stórskemmdist í fárviðri á sama stað fyrir nokkrum árum. Hjónin og börnin höfðu í kjölfarið vetursetu á Akureyri og voru ekki síst komin aftur nú til þess að þakka fyrir hlýhug og velvild bæjarbúa.

Einstök velvild og gestrisni

„Okkur finnst við vera komin heim! Það er yndislegt að koma aftur en að sama skapi tilfinningaþrungið. Við vildum koma og slá upp veislu í þakklætisskyni, fyrir þann mikla fjölda fólks sem aðstoðaði okkur á sínum tíma, en vegna Covid er ekki mögulegt að stefna saman stórum hópi fólks,“ sagði Dario við Akureyri.net. Þau hittu suma en hefðu viljað fá tækifæri til að þakka miklu fleirum. „Þess vegna þætti okkur vænt um ef þú gætir komið á framfæri þakklæti okkar til allra sem hjálpuðu okkur. Takk innilega, Akureyringar!“

Dario nefnir sérstaklega Arngrím Jóhannsson, athafnamann og fyrrverandi flugstjóra. „Hjálp hans og velvilji var með ólíkindum, forráðamenn Slippsins voru okkur líka mjög vinveittir og gerðu við bátinn, og margir fleiri aðstoðuðu okkur að ýmsu leyti, Akureyringar skutu meira að segja yfir okkur skjólshúsi allan þann tíma sem báturinn var í viðgerð. Við höfum komið til meira en 100 landa á langri ferð okkar en dvölin hér var einstök; það var stórkostlegt að upplifa gestrisni og velvild Akureyringa,“ sagði Dario.

Ótrúlegt ævintýri

Ævintýraför hjónanna hófst fyrir rúmlega tveimur áratugum og er lyginni líkust. Þau héldu af stað, ungt par, í ferðalag sem upphaflega stóð til að yrði sennilega fjögur ár en heldur betur hefur teygst úr. Börnin eru orðin sex, fædd hér og þar um heiminn; það yngsta, sonurinn Vital, er Akureyringur – kom í heiminn á Sjúkrahúsinu á Akureyri í ágúst 2017. Skútan Pachamama hefur verið heimili fjölskyldunnar allan þennan tíma og þar eru börnin alin upp. Nafn bátsins þýðir Móðir jörð á máli indíana í Suður-Ameríku. Jörðin og velferð hennar er Sabine og Dario einmitt hugleikin, leiðangurinn helgaður náttúrunni.

Sabine er menntaður hjúkrunarfræðingur en Dario loftslagsfræðingur og alþjóðlegur fjallaleiðsögumaður. Bæði unnu við sitt fag heima í Sviss þegar hugmynd kviknaði um ferðalagið. Fjöllin voru vinnustaður Darios og vegna hlýnunar jarðar og augljósra loftslagsbreytinga langaði þau að leggja sitt af mörkum til að heimsbyggðin áttaði sig á þróuninni.

Hjónin hafa siglt um öll heimsins höfn og frá upphafi tekið sýni, sem nýtast við loftslagsrannsóknir, bæði úr hafinu og á landi. Að auki taka þau reglulega sýni úr hafinu, m.a. af hafsbotni með sérstökum neðansjávardróna, í því skyni að mæla magn plastagna, en sá vágestur er þegar farinn að hafa mikil áhrif til hins verra á lífríkið. Fyrir Íslandsferðina nú voru þau á Jan Mayen.

Mikilvægt að tala við unga fólkið

Sabine var 24 ára þegar ævintýrið hófst, Dario um þrítugt. „Við vorum mikið úti við og jöklarnir í raun heimili okkar. Við fylgdumst með þeim bráðna og fannst mikilvægt að vekja athygli sem flestra á þróuninni,“ sagði hún við höfund þessar greinar, í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu snemma árs 2018. „Við vorum viss um að besta leiðin væri að ná til unga fólksins, ekki endilega með því að benda á það sem miður fer heldur hvað sé hægt að gera ástandið enn betra. Möguleikarnir eru margir og við vorum sannfærð um að besta leiðin væri að hvetja ungt fólk til dáða.“

Fjölskyldan hefur breitt út boðskapinn um allan heim og árið 2018 höfðu þau hitt um 120.000 börn í meira en 100 löndum. Vegna Covid hefur lítið verið um skólaheimsóknir undanfarin misseri en þau vonast til að geta tekið upp þráðinn fljótlega. Mikilvægt sé að ræða við börn um ástandið því þau munu heiminn erfa; börn dagsins muni stjórna heiminum innan fárra ára og þurfa þá að taka mikilvægar ákvarðanir. „Við viljum byggja brú á milli barna og vísinda.“

Íslandsmeistari í siglingum

Svo skemmtilega vildi til að Íslandsmótið í kænusiglingum fór fram á Pollinum meðan fjölskyldan dvaldi á Akureyri og tvö barnanna tóku þátt. Dóttirin Alegra gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í Optimist B flokki og Noé lenti í þriðja sæti í Optimist A flokki. Enn bættist þá í góðar minningar frá Akureyri.

Smellið hér til að sjá umfjöllun mbl.is þegar skútan stórskemmdist í nóvember 2017.


Dario og Sabine Schwörer ásamt börnum sínum sex og kennaranum Mirjam sem er með í för 2018, á Norðurslóðasetri Arngríms Jóhannssonar á Akureyri þar sem þau borðuðu jafnan í hádeginu. Frá vinstri: Mirjan með Miu í fanginu. Alegra og Noé glaðbeitt framan við Sabine móður sína, þá Salina sem heldur á Vital, yngsta barninu, sem fæddist á Akureyri í haust, og loks feðgarnir Dario og Andri. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Hjónin Sabine og Dario Schwörer á skútu sinni, Pachamama, á meðan hún var í viðgerð í Slippnum.