Fara í efni
Mannlíf

Sýndu forsetanum „Tímahylkið“ – MYNDIR

„Ég sá þig í sjónvarpinu,“ sagði Nökkvi Rafn Ingþórsson þegar hann vatt sér að forsetanum á sýningun…
„Ég sá þig í sjónvarpinu,“ sagði Nökkvi Rafn Ingþórsson þegar hann vatt sér að forsetanum á sýningunni. Þeir ræða þarna saman en á myndinni eru líka Elísabet Ásgrímsdóttir starfsmaður Valsárskóla, Unnur Dúa Sigurðardóttir, Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri og Lilja Jakobsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skoðaði í morgun sýninguna Tímahylki í tíð kórónuveirunnar á Safnasafninu, þeirri miklu perlu á Svalbarðsströnd.

Börn úr grunnskóla Svalbarðsstrandarhrepps, Valsárskóla, sögðu forsetanum frá sýningunni. Þar er að finna verk nemenda Valsárskóla og nemenda leikskólans Álfaborgar, sem unnin eru út frá upplifun þeirra á áhrifum COVID-19 á daglegt líf.

Fjórir nemendur Valsárskóla voru í móttökunefnd, tóku á móti forsetanum, gengu með honum um sýninguna og lýsti fyrir honum því sem fyrir augu bar. Margir gáfu kost á sér í nefndina en nöfn fjögurra voru dregin út, tveggja stúlka og tveggja drengja. Þau heppnu voru Eyrún Dröfn Gísladóttir úr 6. bekk, Vakur Hrafn Plessy úr 5. bekk, Friðrik Þór Ómarsson úr 4. bekk og Sveindís Marý Sveinsdóttir, sem er í 10. bekk. 

Tímahylkið opnað eftir 50 ár!

Sýningin er samstarfsverkefni nemenda og kennara skólanna, starfsmanna Svalbarðsstrandarhrepps og starfsmanna Safnasafnsins.

Auk þess að fjalla um áhrif Covid-19 skoðuðu nemendur hvernig fyrri faraldrar hafa leikið þjóðina um leið og þau veltu því fyrir sér „hvernig við erum að skrásetja og varðveita upplýsingar um upplifun okkar,“ sagði í tilkynningu þegar sýningin var opnuð. „Við erum hætt að skrifa bréf, notumst við samfélagsmiðla, geymum ljósmyndir á símum og skýjum og skiljum lítið eftir fyrir framtíðar kynslóðir að sækja í.“

Verkum nemenda og munum sem þau vilja varðveita verður komið fyrir í kassa sem þau kalla Tímahylki og geymt verður á Minjasafninu á Akureyri næstu fimmtíu ár „en þá vilja nemendur koma saman með börnum og kannski barnabörnum, opna, skoða og rifja upp.“