Fara í efni
Mannlíf

Sverrir og töfrarnir í aukaskrefinu

Sverrir Ragnarsson við afgreiðslu í fjölskyldufyrirtækinu, JMJ og Joe's, í aðdraganda jólanna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringurinn Sverrir Ragnarsson hefur óbilandi sjálfstraust, sem hann segir gríðarlega mikilvægt. Það hefur skilað honum langt. Í byrjun janúar hyggst hann ausa úr viskubrunni sínum á spennandi námskeiði í menningarhúsinu Hofi, bæði fyrir unglinga og fullorðna, og setur markið hátt, eins og hann er vanur: „Ég vil hjálpa fólki að verða betra!“ segir hann við Akureyri.net.

Sverrir er búsettur í Denver borg í Colorado ríki vestur í Bandaríkjunum þar sem hann rekur eigið fyrirtæki; starfar sem stjórnendaþjálfari og hefur gert í mörg ár við góðan orðstír. Hann brá sér þó heim til Akureyrar nú á aðventunni og hefur selt herraföt af miklum móð í fjölskyldufyrirtækinu, JMJ og Joe's við Gránufélagsgötu. Hann er keppnismaður og skemmtir sér ekki síst þess vegna í versluninni fyrir jólin. Segist hafa gaman af því að keppa við aðra sölumenn, ekki síst pabba gamla, Ragga Sverris sem kenndur er við JMJ, og bræður sína! 

Töfrarnir í aukaskrefinu

Sverrir situr ekki auðum höndum eftir að  JMJ og Joe's er lokað á daginn; á kvöldin og jafnvel langt fram á nótt sinnir hann eigin fyrirtæki og er þá í sambandi við viðskiptavini víða um heim. „Mér finnst þetta ofboðslega skemmtilegt; ég lifi fyrir þessa vinnu,“ segir Sverrir við Akureyri.net.

Námskeiðið sem áður var nefnt kallar Sverrir Töfrarnir í aukaskrefinu; hann segir aukaskrefin einmitt mjög mikilvæg og kveðst hafa reynt það á eigin skinni. „Ég hef tekið ákveðin aukaskref sjálfur í lífinu, skref sem skipta mjög miklu máli. Ég væri til dæmis ekki að þjálfa hjá Microsoft ef ég hefði ekki á sínum tíma hringt í höfund bókar sem ég las fyrir mörgum árum ...“

Microsoft, já. Sverrir er einn helsti þjálfari stjórnenda hjá tæknirisanum, einu stærsta fyrirtæki heims. Hjálpar þeim að verða enn betri stjórnendur en þeir eru nú þegar. „Ég vinn líka mikið með íþróttafólki í heimsklassa, fólki sem er frábært, en ég trúi – og íþróttafólkið sjálft líka – að það geti orðið enn betra. Ég er ekki alltaf með svörin en ég kann að spyrja spurninga sem fær fólk til að hugsa. Ég vil fá fólk til að líta inn á við og sjái hvað þarf til þess að það verði enn betra.“

Ekki er ofsögum sagt að námskeið Sverris sé spennandi.

  • HÉR er hægt að kaupa miða á Töfrana í aukaskrefinu fyrir unglinga
  • HÉR er hægt að kaupa miða á Töfrana í aukaskrefinu fyrir fullorðna

Vil hjálpa fólki á landsbyggðinni

Sverrir hefur lengi velt því fyrir sér að halda námskeið hér heima og lét slag standa. „Það kemur enginn til Akureyrar með svona námskeið nema hann sé ráðinn að sunnan, en ég er stoltur Akureyringur sem kem heim og held námskeiðið að eigin frumkvæði vegna þess að ég vil hjálpa fólki hér og víðar á landsbyggðinni. Það kostar mig helling að leigja stóra salinn í Hofi en ég tek sénsinn á því. Mig langar innilega til að hjálpa fólki að verða enn betra en það er,“ segir Sverrir.

„Ég vil ekki síst höfða til unga fólksins. Það er frábært að vinna með fullorðnum en ég vil líka hjálpa unga fólkinu að verða betra, mér finnst allt of mikið um hið neikvæða tengjast krökkum, einelti og fleira. Margir krakkar eru líka allt of uppteknir af því að verða eins og allir aðrir. Það er óþarfi og oft gott að vera öðruvísi; Bill Gates, stofnandi Microsoft, sagði einhvern tíma: vertu góður við nördana því einn góðan veðurdag ráða þeir þig hugsanlega í vinnu!“

Sverrir spyr: „Hvaða árangri viltu ná í lífinu; í vinnu, skóla eða íþróttum? Ég vinn mjög mikið með það að fólk taki ábyrgð á eigin árangri; að það taki 100% ábyrgð á sjálfu sér, því þá er það undir því sjálfu komið hvernig það bregst við því sem getur gerst. Ég vinn líka mikið með sjálfstraust, og jákvæð viðhorf, hvernig það getur gert líf okkar betra.“

  • Viltu taka meiri ábyrgð á sjálfum þér?
  • Viltu hafa jákvæðara viðhorf?
  • Viltu fá meira sjálfstraust?
  • Viltu verða betri í að setja þér markmið?
  • Ertu fastur í þægindahringnum og vilt komast út úr honum?

Ástæða er til að vekja athygli á Facebook síðunni Sverrir Ragnarsson - Unforgettable Performance þar sem hann setur inn stutt myndband á hverjum virkum morgni og hefur gert lengi. „Þetta er alltaf ein mínúta að lengd, ég sendi jákvæð skilaboð til fólks sem það tekur með sér út í daginn. Núna í desember fer video númer 600 í loftið,“ segir Sverrir.

  • Meira um Sverri Ragnarsson hér á Akureyri.net á morgun