Fara í efni
Mannlíf

„Sunnanvindur“ yljaði íbúum dvalarheimila

Sunnanvindurinn sem Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Grétar Örvarsson komu með inn á dvalarheimili á norðaustanverðu landinu var hlýr og yljaði mörgum.

„Þetta er hópur þakklátra tónleikagesta og unun að fá tækifæri til að spila fyrir þá. Það er greinilega mikil þörf fyrir skemmtanir fyrir þann hóp fólks sem ekki á heimangengt.“ Þetta segir Grétar Örvarsson tónlistarmaður um heimsókn hans og Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur harmónikkuleikara á dvalarheimli á norðaustanverðu landinu.

Þau Grétar og Ásta Soffía heimsóttu íbúa á dvalarheimilum á norðaustanverðu landinu í liðinni viku og fluttu dagskrá sem byggir á tónleikunum sem fluttir hafa verið undir heitinu „Sunnanvindur“ þar sem flutt eru eftirlætislög Örvars Kristjánssonar, föður Grétars, og eftirlætislög Íslendinga. Tónleikarnir hafa notið mikilla vinsælda. Tvennir slíkir tónleikar voru haldnir í Hofi á Akureyri og fernir í Salnum í Kópavogi. Uppselt var á alla þá tónleika.

Þar sem ekki eiga öll þess kost að sækja tónleika langaði Grétar og Ástu Soffíu að gleðja íbúa á dvalarheimilum. Þau heimsóttu íbúa í Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri, Hvammi á Húsavík, Hornbrekku í Ólafsfirði, Dalbæ á Dalvík og Grenilundi á Grenivík. Þau segja það hafa verið þakkláta áheyrendur sem mættu og gátu auk þess boðið aðstandendum sínum á skemmtunina. Þau vilja jafnframt koma á framfæri þakklæti til Samherja fyrir að leggja verkefninu lið og gera þeim kleift að færa íbúum dvalarheimila tónlistina heim.


Íbúar á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri ylja sér við sunnanvind Ástu Soffíu og Grétars.