Fara í efni
Mannlíf

Sú gamla: Kálfaströnd í Mývatnssveit

Ekki stóð á viðbrögðum þegar Gamla myndin birtist síðasta föstudag, en sá vikulegi þáttur nýtur mikilla vinsælda. Margir bentu fljótlega á að myndin væri tekin á Kálfaströnd í Mývatnssveit, og húsið væri svokallað Valdahús. Þar bjó Valdimar Halldórsson.

Einn lesenda taldi sig sjá glitta í vörubíl Einars Ísfeldssonar sem bjó á hinu búinu ásamt Hólmfríði eiginkonu sinni og fleirum. Í ljós kom að það var laukrétt og Þorgeir Kjartansson upplýsti að bíllinn væri enn til og „í fullu fjöri.“

Þorgeir segir föður sinn hafa eignast bílinn 1978, „þá var Einar búinn að leggja honum og lofa í vagn en faðir minn fékk því breytt. Faðir minn og Einar voru vinir, við tjölduðum oft á Kálfaströnd þegar við vorum á ferðalögum. Chevroletinn er 75 ára í ár,“ segir Þorgeir. Hann sendi meðfylgjandi mynd af vörubílnum.

Smellið hér til að sjá allar gömlu myndirnar sem hafa birst á Akureyri.net.