Fara í efni
Mannlíf

Styrktarviðburður fyrir Hjaltastaði á morgun

Styrktarviðburður undir yfirskriftinni Hreyfing til góðs verður haldinn á morgun, sunnudag, á Vitanum í Strandgötu 53. Viðburðurinn fer fram milli kl. 14:00 og 16:00 og markmiðið er að safna fé til áframhaldandi þróunar Hjaltastaða – samfélagslegs verkefnis sem hefur það að markmiði að skapa von, öryggi og tækifæri fyrir ungt fólk sem hefur átt erfitt með að finna sinn stað í samfélaginu.

Í tilkynningu um viðburðinn segir að Hjaltastaðir séu þróunarverkefni sem unnið sé í minningu Hjalta Snæs Árnasonar, sem lést í mars síðastliðnum þegar hann gekk í sjóinn við Kirkjusand í Reykjavík. „Hjalti Snær var ungur maður með stórt hjarta og næma sál sem átti þó erfitt með að fóta sig í samfélaginu. Verkefnið sprettur af þeirri djúpu þörf að skapa úrræði fyrir fólk eins og hann – þar sem einstaklingar sem finna sig ekki í hefðbundnum kerfum fá tækifæri til að styrkja sig, öðlast sjálfstæði og finna til samstöðu.“

Áhersla á hlýju, virðingu og umhyggju

Markmið Hjaltastaða er að byggja upp stað þar sem fólk 18 ára og eldra sem stendur höllum fæti getur unnið í sjálfu sér, tekið skref í átt að sjálfstæðu lífi og öðlast betri grundvöll fyrir framtíðina. Þar verður lögð áhersla á hlýju, virðingu og umhyggju – að skapa umhverfi sem gefur rými til vaxtar, bata og raunverulegra tækifæra.

Fram kemur hjá skipuleggjendum viðburðarins að gestum verði boðið upp á að sameina hreyfingu, slökun og samveru í þágu góðs málefnis. Aðgangseyrir er 3.000 krónur og á staðnum verður bæði happdrætti og myndakassi þar sem gestir geta fangað augnablikið og tekið gleðina með sér heim. Allur ágóði rennur óskertur til þróunar Hjaltastaða. Með þátttöku í viðburðinum geta gestir lagt sitt af mörkum til að skapa framtíðarúrræði sem byggir á umhyggju, skilningi og raunverulegum tækifærum fyrir þá sem standa höllum fæti.

Ekki aðeins fjáröflun - líka samstöðuviðburður

„Þetta er ekki aðeins fjáröflun,“ segja skipuleggjendur viðburðarins í tilkynningunni. „Þetta er samstöðuviðburður, kærleikskveðja til Hjalta Snæs og allra þeirra sem finna sig ekki í samfélaginu okkar. Við vonumst til að fylla Vitann á sunnudaginn og með sameiginlegu átaki hjálpa verkefninu að komast lengra. Hjaltastaðir eru vonarverkefni – staður til að byggja sig upp.“

Eins og áður segir fer viðburðurinn fram á Vitanum að Strandgötu 53 , sunnudaginn 2. nóvember milli kl. 14:00–16:00. Allir eru hjartanlega velkomnir að taka þátt, hreyfa sig, eiga góða stund og styrkja Hjaltastaði.

Fyrir þau sem komast ekki á viðburðinn, en vilja leggja sitt af mörkum á annan hátt, er hægt að styrkja verkefnið beint:

  • Bankareikningur: 0566-05-400111
  • Kennitala: 690684-1369

Facebooksíða Hjaltastaða