Fara í efni
Mannlíf

Styrkir ungar mæður á heimili í Kenýa

Mynd af Facebook-síðu Haven Rescue Home, en Bryndís Óskarsdóttir vill styrkja starfsemi heimilisins með því að bjóða upp málverk eftir sjálfa sig.

Bryndís Óskarsdóttir hefur sett af stað uppboð til að styrkja heimili í Kenýa þar sem hlúð er að ungum og verðandi mæðrum. Hún kveðst vilja láta gott af sér leiða og hafi lengi velt fyrir sér hvað hún gæti gert.

Heimilið sem Dísa vísar til, Haven Rescue Home, er í Kenýa og er ætlað fyrir stelpur, 18 ára og yngri, sem eru barnshafandi eða mæður ungra barna. Anna Þóra Baldursdóttir stofnaði heimilið eftir að hafa verið í sjálfboðastarfi á barnaheimili í Kenýa. „Ég dáist að þrautseigju hennar og vinnu og veit hvað þetta skiptir miklu máli fyrir þessar ungu mæður og börnin og hvað hún er að vinna gott starf,“ skrifar Dísa í texta með myndunum sem hún er nú að bjóða upp til styrktar heimilinu. Hún mun síðan tilkynna næsta sunnudag, 14. maí, hver á hæsta boðið.

Hún birti mynd af málverkunum á Instagram-síðu sinni og þar er hægt að bjóða og fylgjast með uppboðinu. Þegar þetta er ritað er hæsta boð rúmar 55 þúsund krónur. Bryndís bendir jafnframt á að fólk sem vilji styrkja heimilið geti einnig lagt inn á styrktarreikning þess, en allar upplýsingar má finna á Facebook-síðu heimilisins – Facebook.com/styrktarfelaghrh.

Bryndís hefur vakið athygli fyrir mörg verkefni sem hún hefur tekið sér fyrir hendur, jafnt í hönnun, ferðaþjónustu og öðru. Hún segir sjálf að áhugaverðast við þetta sé að það eru alltaf leiðir fyrir fólk til að hjálpa og þar sem hún starfi sjálf við það alla daga að kenna fólki að hugsa út fyrir ramman og nýta það sem til er þá hafi hún sjálf fundið sig knúna til að finna sniðuga leið til að gefa af sér.