Fara í efni
Mannlíf

Stundum gerist eitthvað geggjað

Gleði í Basel! Frá vinstri: Kærustuparið Maríanna Guðbjörg Sigfúsdóttir og Gunnar Björn Gunnarsson, og foreldrar hans, Gunnar Björn Þórhallsson og Björk Vilhelmsdóttir.

Þegar Akureyringurinn Gunnar Björn Gunnarsson samdi fyrstu drög að lagi heima í blokkaríbúð sinni í Reykjavík fyrir tveimur árum óraði hann ekki fyrir því að vorið 2025 yrði það flutt á úrslitakvöldi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva – Eurovision.

Gunnar Björn er einn fjögurra höfunda lagsins Róa, sem bræðurnir í VÆB, fluttu í Basel í Sviss á þriðjudagskvöld og munu gera aftur í kvöld, þegar úrslit ráðast í keppninni. „Þegar ég samdi fyrstu útgáfuna fjallaði lagið um tvo sjóræningja á siglingu; þaðan kemur laglínan í viðlaginu. Ég fór með hugmyndina til Inga, við unnum í henni saman en svo var hún bara uppi í hillu þangað til VÆB strákarnir hoppuðu á hugmyndina,“ segir Gunnar Björn í símtali við Akureyri.net frá Sviss.

Gunnar Björn og Ingi Þór Garðarsson hafa unnið mikið saman síðustu ár við að semja tónlist. „Ég hef verið að semja alls konar tónlist hátt í 10 ár, hef gefið út nokkur lög með Inga og eitt sjálfur, en á mikið í bankanum. Ég hef verið að semja fyrir skóla, m.a. fyrir SviMA, stuttmyndafélag MA, líka fyrir Versló og fleiri.“

VÆB bræðurnir Matthías Davíð og Hálfdán Helgi Matthíassynir, Gunnar Björn Gunnarsson, annar frá vinstri, og Ingi Þór Garðarsson, lengst til hægri.

VÆB bræðurnir, Matthías Davíð Matthíasson og Hálfdán Helgi Matthíasson, tóku þátt Söngvakeppni Sjónvarpsins á síðasta ári. Þá langaði að vera með aftur og vantaði lag, segir Gunnar Björn. Þá kviknaði sú hugmynd að teygja sig upp í hillu, ef svo má segja, og sækja hugmyndina sem áður var nefnd. „Þetta byrjaði sem sagt hjá mér, við Ingi tókum nokkur skref saman og svo koma Væbararnir,“ segir Gunnar Björn. Fjórmenningarnir eru allir skráðir höfundar lagsins sem fyrr segir.

„Ég bjóst ekkert endilega við þessu. Lagið var búið að vera lengi í geymslu en svo þróaðist þetta svona; VÆB bræðurnir taka það og gera úr því Eurovision-lag, þeir eru mjög duglegir að auglýsa sig á samfélagsmiðlum og voru a.m.k. með mikinn stuðning hjá krökkum, og svo vinna þeir keppnina,“ segir Gunnar.

Hann segir það sannarlega koma sér skemmtilega á óvart að lagið skuli komið svona langt. „Já, mér finnst það rosalega fyndið; að það sem ég byrjaði að gera í tölvunni heima sé komið í Eurovision! Þetta er það sem mér finnst skemmtilegast við tónlist, maður veit aldrei hvenær hún springur út. Stundum gerist ekkert en stundum gerist eitthvað geggjað.“

Hann bætir við að í raun sé það „risastórt fyrir lagið að komast áfram, ef maður hugsar um hve margir fylgjast með úrslitakvöldinu. Ég hef heyrt að um 200 millljónir horfi í beinni útsendingu.“

Gunnar Björn Gunnarsson í Basel.

Gunnar Björn er ekki menntaður í tónlist en segir: „Ég var alltaf að leika mér á píanó þegar var yngri og hafði gaman af tónlist en hugmyndin að prófa að gera lög kviknaði með Gísla [Mána Rósusyni] vini mínum. Það var þegar við vorum með samfélagsmerkið Miðjan; við ætluðum að gefa út einhvers konar lög en þau komu aldrei svo ég byrjaði að leika mér að semja heima. Svo fór ég að vinna með Inga og hef samið mikið með honum.“

Spurður um framhaldið á þessum vettvangi, svarar Gunnar Björn því til að hann hafi gaman að því að vinna með allskonar fólki og muni halda áfram að gera lög. Þau verði oftast þannig til að hann búi til ákveðinn grun, spinni síðan laglínur og texta og geri prufuupptöku – demó. „Ég fer svo með hugmyndina til annarra sem hjálpa mér að stækka hana.“ 

Hann hlakkar eðlilega mikið til úrslitakvöldsins. „Það bjuggust ekkert allir endilega við því að komast áfram en hér er geggjuð gleði og allir mjög hamingjusamir. Aðalmálið var að við ætluðum að hafa gaman að þessu en þetta er komið miklu lengra en maður hafði hugsað sér að myndi gerast,“ segir hann. „Það er rosalega góður andi hér á hótelinu þar sem eru m.a. hópar frá hinum Norðurlöndunum og við finnum fyrir góðum stuðningi frá þeim. Ég er mjög spenntur fyrir úrslitakvöldinu og við ætlum auðvitað að komast sem hæst!“