Fara í efni
Mannlíf

„Stórkostleg upplifun að sjá drauma Bjarneyjar rætast“

„Það er stórkostleg upplifun að sjá hvernig Bjarney Guðrún sigrast á aðstæðum sínum, í hverju svo sem hún tekur sér fyrir hendur – að sjá drauma hennar rætast,“ segir rithöfundurinn og sjónvarpsmaðurinn Sigmundur Ernir sem staddur er í Mílanó á Ítalíu við upptökur á þriðju seríu sjónvarpsþáttanna Dagur í lífi, sem sýndir hafa verið RÚV á síðustu árum við mikla hrifningu. Í þáttunum er fjallað um margvíslegar áskoranir fatlaðs fólks á Íslandi. 

Akureyringurinn Bjarney Guðrún Jónsdóttir er einn viðmælenda í næstu þáttaröð af Dagur í lífi.

Bjarney Guðrún er einn af átta viðmældum í nýju þáttaröðinni, en hún er nú á þriðja og síðasta ári í námi sínu í viðskipta- og markaðsfræðum við virtan háskóla í Mílanó sem einkum beinist að sölu á hönnunar- og tískuvörum.

„Hún er auðvitað alin upp við þá mikilvægu hvatningu foreldra sinna að gera það sem hana langar til,“ segir Sigmundur Ernir og vitnar þar í viðtal sitt við Bjarneyju Guðrúnu. „Það skiptir öllu að veðja á styrkleika sína en láta veikleikana ekki stíga sér til höfuðs,“ bætir hann við og segir viðmælanda sinn vera einstakt dæmi um manneskju sem lætur enga tálma í veginum stöðva sína för.

Bjarney Guðrún er með sömu arfgengu fötlun og faðir hennar, Jón Heiðar Jónsson, en vöðvakerfi þeirra feðgina hefur ekki þann styrk sem þarf til gangs, en að öðru leyti eru þau fær í flestan sjó eins og heimamenn á Akureyri hafa heldur betur tekið eftir, enda eru feðginin virk með afbrigðum í samfélaginu, jafnt í leik og starfi.

Bjarney Guðrún ásamt hjónunum Elínu Sveinsdóttur og Sigmundi Erni Rúnarssyni sem framleiða þættina Dagur í lífi.

„Bjarney Guðrún nýtir sér NPA-aðstoð við nám og hversdagsleg verkefni í Mílanó, en þar hefur hún að jafnaði þrjár aðstoðarmanneskjur sem skipta með sér verkum við að hjálpa henni við persónulegar þarfir. En hún lagar þessa mikilvægu þjónustu algerlega að sínum þörfum í einu og öllu og stjórnar sínu lífi eins og hún vill lifa því,“ segir Sigmundur Ernir, en þar sé galdur notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar komin. „Bjarney er mjög sjálfstæð, og veit hvað hún vill.“

„En NPA er öflugasta jafnréttistækið í mannréttindabaráttu fatlaðra sem veitir þeim tækifæri á við aðra við að láta drauma sína rætast,“ segir Sigmundur Ernir. „Fyrir mig sem föður fatlaðs barns sem ólst upp við sínar takmarkanir fram undir síðustu aldamót er það á við opinberun að sjá hvaða byltingu NPA hefur haft í för með sér fyrir fatlað fólk á nýrri öld. Umskiptin eru alger. Tækifærin bíða alls staðar, ólíkt því sem áður var.“

Þátturinn um Bjarneyju Guðrúnu verður sýndur á RÚV á næsta vetri, og mun Akureyri.net vekja athygli á sýningu hans þegar þar að kemur.

Það er SERES hugverkasmiðja, framleiðslufyrirtæki hjónanna Sigmundar Ernis og Elínar Sveinsdóttur sem framleiðir þættina fyrir RÚV en myndatöku og klippingu annast Steingrímur Jón Þórðarson. „Í þessu þríeyki er samankomin meira en 100 ára reynsla!“ sagði Sigmundur Ernir við Akureyri.net.