Fara í efni
Mannlíf

Stofnandi Gróttu tók við bikarnum

Sigri hrósandi Seltirningar eftir sigur í öðlingadeild Pollamótsins í gær. Hinn síungi Garðar Guðmundsson, stofnandi Gróttu og þjálfari elstu „stráka“ félagsins til áratuga, er til vinstri í neðri röðinni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Það var stór stund fyrir Garðar Guðmundsson að hampa bikarnum eftir sigur Gróttu í öðlingadeild, keppni þeirra elstu, á Pollamóti  Þórs og Samskipa í knattspyrnu gær. Hann var að vísu ekki að spila enda varð Garðar áttræður fyrr á árinu, en hann er þjálfari Gróttu og hefur stýrt liðinu á öllum Pollamótum frá upphafi eða frá 1988. Það eru komin 34 ár og þetta er í annað skipti sem Grótta ber sigur úr býtum, Seltirningarnir fögnuðu líka sigri fyrir fjórum árum.

Það sem meira er, þá stofnaði Garðar íþróttafélagið Gróttu árið 1967 þegar hann skipulagði knattspyrnuæfingar fyrir unga hnokka á Seltjarnarnesi. Leitun að stofnendum íþróttafélaga á Íslandi sem hafa átt lið í úrvaldsdeild. Á fyrstu æfingu Gróttu undir stjórn Garðars voru tveir liðsfélagar sem stóðu á verðlaunapalli í gær, heilum 55 árum síðar, og enn spila þeir undir styrkri handleiðslu Garðars, þeir Franz Ploder og fyrirliðinn, Ólafur Garðarsson! Á búningum Gróttu hafa liðsmenn raunar merkt sig „Garðarsson“ þjálfara sínum og stofnanda félagsins til heiðurs.

Fyrsta kosningaloforðið!

Óhætt er að segja að spennan hafi verið mikil fyrir síðustu umferð í öðlingadeildinni, en til þess að Grótta bæri sigur úr býtum þurftu Óþokkar að vinna KR og Grótta þurfti að vinna upp sex marka mun. Svo fór að Óþokkarnir gerðu Gróttumönnum þann greiða að vinna KR 2:1 og Grótta vann sinn leik 10:1 eftir að staðan var 3:1 í hálfleik. Öll enduðu liðin jöfn að stigum en Grótta vann mótið á markamun.

Gaman er að segja frá því að Þór Sigurgeirsson sem nýlega tók við sem bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, mætti með sínum mönnum á mótið. Hann hefur raunar jafnan mætt á Pollamótið, oftast sem leikmaður, en lét það ekki aftra sér að meiðsli kæmu í veg fyrir að hann gæti spilað að þessu sinni. Fleiri bæjarstjórar eða borgarstjórar ef út í það er farið mættu taka Þór sér til fyrirmyndar og mæta með sínu liði á Pollamótið. Þór vakti af þessu tilefni athygli á því að með Pollamótsbikarnum væri fyrsta kosningaloforðið komið í hús!

Garðar Guðmundsson, stofnandi Gróttu og þjálfari öðlingaliðsins, og Anna María Sampsted eiginkona hans fylgjast með síðasta leik liðsins í gær.

Með medalíuna í sund

„Við erum góðir,“ sagði fyrirliðinn Ólafur Garðarsson, sá kunni umboðsmaður fótboltamanna, þegar rætt var við hann undir kvöld. „Ég var að koma upp úr Þelamerkurlauginni og var með medalíuna á mér allan tímann.“ Hann kvaðst mjög hrærður yfir sigrinum. „Það sem stendur upp úr er fyrst og fremst Garðar eigandi liðsins, stofnandi og þjálfari, og konan hans Anna og svo félagsskapurinn, strákarnir og fjölskyldur þeirra sem hafa sum hver komið hingað á hverju ári í áratugi. Titillinn er svo rúsínan í pylsuendanum!“

Í því frækna liði sem vann öðlingadeildina í ár voru bræðurnir Ólafur Garðarsson og Ingólfur Garðarsson, Davíð Sverrisson, Kristinn Arnarson, Þór Hauksson, Franz Ploder, Kári Friðriksson, Grétar Jónasson, Bjarni Stefán Konráðsson, Þorsteinn Stefánsson og Pétur Blöndal.

Uppskeruhátíð

„Þetta var sætasta útgáfan af sigri. Það er alltaf rígur við KR-inga og við töpuðum fyrir þeim núna, og unnum samt titlinn – það gerði meira en að vega upp á móti tapinu. Sætara verður það ekki!“ segir Franz og hlær. „Það er magnað; við höfum komið ár eftir ár og það er eins og þetta verði alltaf skemmtilegra. Og svo var auðvitað gott að heyra Pollameistaralagið aftur,“ segir Þorsteinn.

„Þetta er uppskeruhátíð stráka og stúlkna á öllum aldrei sem spila fótbolta,“ segir Pétur Blöndal. „Það er bros á öllum – að minnsta kosti eftir lokaflautið og dásamlegt í sólskininu á pallinum. Þar hittast margir sem hafa jafnvel ekki sést áratugum saman og það eru jafnan fagnaðarfundir. Það er náttúrlega alltaf sól og blíða fyrir norðan eins og við norðanmenn þekkjum, og landsmönnum er sýnt fram á það með óyggjandi hætti á Pollamótinu!“

Pétur bjó um tíma á Akureyri sem strákur og var þar með annan fótinn meðan Halldór faðir hans var alþingismaður. Blöndal yngri  þekkir því vel hina akureyrsku heilsársblíðu. Eins gott að hann er ekki enn fyrir norðan í dag fyrst haustið skall á með fullum þunga í morgun ...

Helstu aðdáendur Öðlingadeildarmeistara Gróttu fagna augnablikið eftir að titillinn var í höfn.