Fara í efni
Mannlíf

Steini, séra Pétur og óvænt atvik á flugvelli

Hjónin Þorsteinn G. Þorsteinsson og Sesselja Stefánsdóttir fyrir margt löngu - og séra Pétur Sigurgeirsson, lengi prestur á Akureyri og síðar biskup Íslands.

Þorsteinn G. Þorsteinsson, oft kenndur við Hrísey, rifjaði nýlega upp nokkra minnisstæða atburði á Facebook-síðu sinni og segir skemmtilega frá. Hann gaf akureyri.net góðfúslegt leyfi til birtingar og hér kemur ein sagan. 

Þorsteinn segir þar frá atviki sem átti sér stað árið 1982, þegar þau hjónin, hann og Sesselja Stefánsdóttir, voru að fara til Króatíu. Frásögnin er kostuleg og óhætt að segja að nú sé öldin önnur hvað öryggismál á millilandaflugvöllum varðar!

_ _ _ _ _

Gefum Þorsteini orðið:

Þarna vorum við sem sagt komin út í flugvél á Keflavíkurflugvelli og tilbúin að fara í loftið. Það var búið að loka dyrum vélarinnar og allt var klárt, þegar allt í einu er sagt í hátalara: „Þorsteinn Þorsteinsson er beðinn að koma á skrifstofu flugstöðvarinnar.“

Hvað er nú í gangi segi ég við konuna. Það hlýtur að vera eitthvað skelfilegt. Stóð síðan upp og það kom flugfreyja sem fer með mig að útgöngustað sem búið var að opna. Þar kom einhver flugvallarstarfsmaður og fylgdi mér að þessari skrifstofu sem ég var boðaður til. Hver haldið þið að þar hafi verið þar fyrir, annar en góðkunningi minn, séra Pétur Sigurgeirsson, sem þarna var þá orðinn biskup Íslands.

„Þorsteinn minn,“ sagði sá góði maður. „Átt þú ekki enn A 1247?“ Ég játti því. „Hann stendur hérna úti á stæðinu, með fullum ljósum og verður örugglega orðin straumlaus þegar þú kemur til baka.“

Eftir að hafa þakkað honum kærlega fyrir þetta vinarbragð sagði hann mér að hann væri að fara á ráðstefnu til Lundúna, en hefði rekið augun í bílinn þegar hann kom. Síðan hljóp ég út í bílinn og slökkti ljósin áður en mér var aftur fylgt út í flugvélina. Það voru mörg augun sem fylgdu mér að sæti mínu, þar sem konan beið með spurn í augum. Innan stundar var flugvélin komin í loftið.

Efast stórlega um að svona nokkuð gæti gerst í dag.