Fara í efni
Mannlíf

Spilamiðstöð sem ýtir undir skapandi samveru

Ásta og Steini vilja skapa góða aðstöðu fyrir umfangsmeiri borðspil og hafa því hrundið af stað hópfjármögnunarverkefni á Karolina Fund sem miðar að því að bæta aðstöðuna í spilasalnum. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Ásta Hrönn Harðardóttir og Þorsteinn Marinósson, eigendur Goblin á Akureyri, selja spilatengdar vörur og bjóða upp á aðstöðu til spilaviðburða. Þau standa nú fyrir söfnun á Karolina Fund með það markmið að bæta spilasal verslunarinnar, en aðstaðan er sú eina sinnar tegundar á landsbyggðinni.

Goblin er staðsett í hjarta miðbæjarins, við Ráðhústorgið, nánar tiltekið við Brekkugötu 1b. Þar er ekki bara hægt að kaupa spil og spilatengdar vörur heldur er einnig hægt að setjast niður á opnunartíma verslunarinnar og grípa í spil. Í spilasal Goblin, sem er hjarta staðarins, er aðaláherslan á félagslega- og menningarlega þætti borðspila. Eigendurnir, þau Ásta og Þorsteinn, segja að þetta hafi allt byrjað sem lítil hugmynd, sem hefur nú undið upp á sig enda ljóst að þörfin fyrir aðstöðu sem þessa sé langþráð á svæðinu.

Mikið söfnunargildi er fólgið í sumum spilunum. Þá er jafnvel hægt að keppa á stórum alþjóðlegum mótum eða heimsmeistaramótum í stærstu spilaflokkunum og lesa heilu skáldsögurnar sem spilin tengjast og eða byggjast á. Þarna eru því margþætt áhugamál sem fléttast saman.

„Ég segi stundum við þá sem ekki þekkja þessi safnspil eins og Magic, Pokémon o.þ.h. að þetta sé félagsvist, bridge og skák nútímans. Þau byggjast oft á nokkuð umfangsmiklum reglum, útsjónarsemi og útreikningi, ásamt því að fólk komi saman og spili í hóp,“ segir Ásta, þegar þau eru beðin um að útskýra hverskonar spil þau selja í versluninni. „Þá er oft fleiri en ein leið til þess að spila spilin sem gera þau fjölbreytt,“ segir Þorsteinn og bætir við að ásamt því að þjálfa þessa þætti, þá eru þau skemmtileg, skapandi og styrkja ímynduraflið. Þá eru þau einnig mun auðlærðari og aðgengilegri en margir halda.

Í Goblin fást ýmis spil og spilatengdar vörur. Hjarta staðarins er þó spilasalurinn þar sem fólki er velkomið að setjast niður og grípa í spil á opnunartíma verslunarinnar.

Vikuleg spilakvöld í vinsælustu spilunum

Goblin stendur einnig reglulega fyrir námskeiðum, mótum og öðrum viðburðum. Þá er hægt að leigja spilasalinn undir afmæli eða starfsmannahittinga. Einnig finnst eigendunum sérstaklega skemmtilegt að vera með Pop-up kynningar og spilaviðburði í öðrum bæjarfélögum. „Við leggjum áherslu á spil sem efla félagsleg tengsl og sköpunarkraft með skipulögðum viðburðum. Við erum líka með venjulega spilastokka og borðspil til afnota, en fólk getur einnig tekið með sín eigin spil og nýtt aðstöðuna á opnunartíma verslunarinnar. Þar eru einnig ýmsir skemmtilegir viðburðir flesta daga sem vert er að kynna sér,“ segir Ásta. „Til dæmis eru spilakvöld á virkum kvöldum í vinsælustu spilunum, á borð við Magic, Warhammer, Pokémon og D&D. Kvöldin eru opin öllum og hugsuð til þess að efla samfélagið kringum spilin,“ bætir Þorsteinn við.

    • Nóvember er alþjóðlegur borðspilamánuður og að því tilefni stendur Goblin fyrir fjölda spilaviðburða í samstarfi við Amtsbókasafnið. Þessir viðburðir eru tilvalið tækifæri fyrir almenning til að kynnast borð- og hlutverkaspilum betur. Sjá nánar hér: https://www.visitakureyri.is/is/vidburdadagatal
      _ _ _ _ _

Styrkir félagsleg tengsl

„Það sem heillar mig mest við þetta er félagslegi þátturinn og listræni parturinn. Því er kjarninn í okkar starfsemi þessi áhersla á skjálausa samveru í skapandi umhverfi,“ segir Ásta og heldur áfram; „Okkur finnst afar mikilvægt að börn og fullorðnir stundi áhugamál sem styrkja félagsleg tengsl og efla skapandi hugsun, en týni sér ekki alfarið í skjátækjum. Það er eitt af því sem við erum hvað stoltust af við spilasalinn okkar. Hjá okkur er tækifæri til þess að gleyma sér við skjálausa skemmtun og njóta samveru með vinum, fjölskyldu eða öðrum sem deila sömu áhugamálum. Við teljum spilasalinn geta þjónað því mikilvæga hlutverki að vera friðsælt afdrep í hraða nútímans og mikilvæga viðbót í afþreyingu á svæðinu.“

„Við köllum okkur „skapandi spilamiðstöð“ því mörg spilin ganga ekki aðeins út á það að kasta tening og færa spilakalla eins og t.d. gamla góða Lúdó. Til dæmis í Warhammer þarf fyrst að raða saman módelum og mála, svo er spilað með módelunum. Sumir stunda það jafnvel eingöngu að mála módelin og safna þeim, en spila ekki spilið sjálft. Við fáum líka til okkar gesti sem setjast niður með teikniblokk og nýta rýmið til listsköpunar. Það finnst okkur frábært að sjá og er einmitt andrúmsloftið sem við sækjumst eftir,“ segir Ásta.

Hugmynd sem óx og dafnaði

Aðspurð út í það hvernig hugmyndin að Goblin hafi kviknað segir Ásta það hafa verið þegar hún fór fyrst inn í Nexus í Reykjavík með systkinum sínum, fyrir mörgum árum síðan. Þá var sú verslun enn staðsett á Hverfisgötunni og talsvert minni en í dag. Á þeim tíma var Ásta búsett í Reykjavík og hafði nýlokið námskeiði í nýsköpun, hún fór því að velta fyrir sér hvort markhópur væri fyrir slíkri verslun á Akureyri. Hún og systkini hennar léku sér aðeins með hugmyndina sem lagðist þó aftur í dvala þar sem aðstæður hentuðu ekki. Hugmyndin vaknaði svo aftur þegar börnin hennar fóru að sýna borðspilum á borð við Magic áhuga og tækifærið gafst til að stofna sitt eigið fyrirtæki. Að sögn Ástu og Þorsteins átti Goblin upphaflega bara að vera lítil netverslun með lager á Akureyri, en hugmyndin bara óx og dafnaði við samtöl og stuðning frá spilasamfélaginu. Í hópinn bættist svo traust og gott starfsfólk, með sérstaklega djúpa þekkingu og mikla reynslu af allskonar spilum. Þau deila þekkingu sinni með viðskiptavinum, stýra og leiðbeina á spilaviðburðum. Án þeirra hefði hugmyndin ekki náð að blómstra, að sögn eigandanna.

Í spilinu Warhammer þarf fyrst að raða saman módelum og mála, svo er spilað með módelunum.

Vilja hlúa að félagslegri heilsu

Eins og áður segir, er hópfjármögnunarverkefni í gangi á vegum Goblin á Karolina Fund sem miðar að því að bæta aðstöðuna í spilasalnum. „Við lítum á þetta sem mikilvægt samfélagslegt verkefni, að bjóða upp á spilamiðstöð, þar sem allir eru velkomnir. Okkur langar t.d. að bæta hljóðvist og lýsingu. Við viljum hafa stemminguna heimilslega og huggulega“ segir Ásta. „Til þess að fólk eigi hér góða spila-upplifun, viljum við útbúa rétta aðstöðu sem hentar umfangsmeiri borðspilum og bjóða upp á notalegt rými án endurgjalds. Jafnt aðgengi allra að spilamiðstöðinni finnst okkur mikilvægt. Um það snýst verkefnið. Að hafa tækifæri og aðstöðu til að hlúa að andlegri og félagslegri heilsu, slaka á og njóta er öllum lífsnauðsynlegt,“segir Ásta að lokum. Þeir sem vilja taka þátt í hópfjármögnuninni geta farið inn á söfnunarsíðu Goblin hér:

https://www.karolinafund.com/project/view/3944

Goblin er til húsa við Brekkugötu 1b en þar var t.d. Sparisjóður Glæsibæjar einu sinni til húsa en rammbyggð peningahirsla er enn í húsnæðinu.