Fara í efni
Mannlíf

Söngstund með Kristjáni er fastur liður á Hlíð

Kristján frá Gilhaga stendur fyrir vikulegum söngstundum á Hlíð, Heilsuvernd Hjúkrunarheimili. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Eftir hádegið á miðvikudögum má ganga út frá því að það berist hressilegur söngur frá salnum á Hlíð. Þá er Kristján frá Gilhaga stundvíslega mættur með harmonikuna og söngelskir íbúar og notendur í dagþjálfun búnir að safnast saman til gleðinnar. Það eru klassísku lögin sem allir af þessari kynslóð þekkja vel og hafa sungið ótal sinnum á mannamótum, sem eru á dagskránni. Allir hafa sitt eigið sönghefti, með textum, en langflest hafa bókina sér aðeins til halds og trausts, þau kunna hvert einasta orð. 

„Ég flutti til Akureyrar árið 2008, og ég hef verið að koma hingað og spila síðan,“ segir Kristján, þegar blaðamaður Akureyri.net grípur hann eftir söngstundina. „Þá var þetta ekki svona reglulega, en nánast í hverri viku. Ég hef samt ekki hugmynd um hvað ég hef komið oft!“ Um langt skeið hefur það verið fastur liður að fá Kristján í heimsókn á miðvikudögum, eina röskunin á því var í Covid. „En þegar veður leyfði, þá kom ég nú samt og þá sungum við úti í garði,“ segir Kristján, en hann þarf ekki meira með sér en sjálfan sig og nikkuna. 

 

Vel er mætt til vinarfundar. Kristján stendur fyrir miðju og vappar um með nikkuna. Mynd: RH

Þennan miðvikudaginn eru um það bil 60 manns með í söngstundinni, en það er alltaf vel mætt. Það er svo lítill hópur söngfugla sem fylgir Kristjáni á Hlíð, sem mætir til þess að vera forsöngvarar, en það er fólk sem er í flestum tilfellum hætt að vinna og hefur yndi af því að syngja. 

„Ég stend alltaf. Mér finnst alveg ómögulegt að sitja,“ segir Kristján. „Þá nær maður engu sambandi við fólkið. Þetta snýst um að ná upp stemningu og það virkar ekkert þegar menn sitja bara út í horni og horfa ofan í gólfið. Þessi nikka er reyndar óþarflega þung, hún sígur alveg í. Ég þyrfti nú kannski að skoða það að finna mér léttari, þær eru alveg til.“  

 

 

„Þetta heldur mér alveg eins gangandi,“ segir Kristján, sem varð áttræður í apríl síðastliðnum. „Þetta hefur verið mitt líf og brauð alla tíð, að spila fyrir fólk. Ég byrjaði 10 ára að spila undir söng á spilakvöldum hjá kvenfélaginu í gamla daga, það var enginn annar í sveitinni sem var að spila, þannig að prestsfrúin Hrefna Magnúsdóttir hringdi bara í mig tíu ára gamlan og réði mig í verkefnið.“ Kristján er frá Gilhaga í Skagafirði, en fljótt fór að kvisast um sveitina að á bænum væri efnilegur tónlistarmaður og Kristján fór að fá fleiri og fleiri fyrirspurnir. 

„Ég var bara sjálflærður þá, en ég fór svo síðar í tónlistarskóla og fór í tónfræði og þetta allt saman,“ segir Kristján. „Ég var svo um það bil 50 ár í Karlakórnum Heimi, en var eiginlega ekki alveg hættur fyrr en fyrir tveimur árum síðan. Við vorum nokkrir sem smöluðum í bíl héðan frá Akureyri og mættum á söngæfingar í hverri viku.“

 

Það kemur fyrir að hressir sönggestir taki upp hald og stígi dans. Mynd RH

Fyrir utan tónlistina er Kristján vélstjóri og lærður járnsmiður. „Ég var mikið í vélavinnu, á þungavinnuvélum í vegagerð. Í seinni tíð hef ég verið að stoppa upp dýr og fugla.“

Það er hægt að ganga að því vísu, að söngstundinni ljúki með því að Kristján tilkynnir fólkinu að loka bókunum og allir vita hvað kemur næst. Guttavísur óma um salinn og einhverjir syngja með þvílíkum tilþrifum að það er líkt og Gutti ræfillinn sé mættur til þess að taka við skömmum fyrir að rífa nýja jakkann sinn. Síðan er punkturinn settur yfir i-ið með laginu um Stínu sem fer í búðina og kaupir rautt klæði á brúðuna sína. „Ég legg mikið upp úr því að þetta bresti ekki,“ segir Kristján, um að halda söngstundunum gangandi vikulega. „Fólk treystir á þetta og þetta er fastur punktur í tilverunni hérna. Svo er þetta svo gott og gaman fyrir okkur öll.“