Fara í efni
Mannlíf

Söngkeppnin verður í Eurovisionbænum

Lið Menntaskólans á Tröllaskaga, sigurvegarar Söngkeppninnar 2021. Ljósmynd: Örlygur Hnefill

Söngkeppni framhaldsskólanna fer að þessu sinni fram á Húsavík, í sjálfum Eurovisionbænum sunnudaginn 3. apríl og hefst klukkan 19.45. Alls keppa tuttugu og þrír skólar til sigurs, alls staðar að af landinu, og keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV. Framkvæmdastjóri keppninnar er Hlynur Þór Jensson, og lofar góðri skemmtun heima í stofum landsmanna, en kynningarfulltrúi og framleiðandi er Örlygur Hnefill Örlygsson.

Þeir Hlynur og Örlygur hafa áður komið nærri þessari keppni, en þeir voru í hópi framhaldsskólanemenda á Akureyri sem tóku að sér að halda keppnina í Íþróttahöllinni þar vorið 2003. Örlygur bendir á að keppnin hafi þróast á þessum rúmlega þremur áratugum sem hún hefur staðið og fjölmargir listamenn hafi stigið sín fyrstu skref þar og haldið þaðan út í hinn stóra heim listanna. Þar megi nefna Glowie, Sölku Sól, Pál Óskar og Hjaltalín og af norðanfólki, Eyþór Inga, Stefán Jakobsson og Unni Birnu Bassadóttur, svo einhverjir séu nefndir.

Lengsta Afsakið – hlé í sögu Sjónvarpsins!

Örlygur rifjar upp allt umstangið við að halda keppnina í fyrsta sinn á Akureyri. Þetta hafi átt að vera glæsilegt og óaðfinnanlegt. „Og þetta fór æðislega vel af stað, en svo áttum við lengsta „Afsakið – hlé“ í sögu Sjónvarpsins. Heilar níu mínútur. Við vorum búin að keyra allt kerfið á fullu í tvo daga og allt var í stakasta lagi. Svo fylltist salurinn af fólki og allt í góðu, en síðan kom Stebbi Jak og söng Still loving You / Elska þig enn, af þvílíkum krafti að salurinn trylltist af fögnuði og – rafmagnið fór. Hitinn af áhorfendapöllunum steig til lofts. Við vissum ekki þá að það var tvöfalt loftræstikerfi í húsinu, annað bara venjulegt en hitt sjálfvirkt og fór af stað ef vissu hitastigi var náð. Og þarna hitnaði svo í kolunum að varakerfið fór í gang og það var of mikið fyrir raflagnirnar. En eftir níu mínútur fór allt af stað á ný og gekk glimrandi vel.“

Söngkeppnin var haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri í nokkur skipti til viðbótar en síðan hefur hún farið fram í Reykjavík og nágrenni. Á síðasta ári bar Menntaskólinn á Tröllaskaga sigur úr býtum, en þar voru Þorvaldssynir, Júlíus og Tryggvi ásamt félögum sínum sem nú skipa hljómsveitina Ástarpungana.

Keppnin fer fram í Íþróttahöllinni á Húsavík og þar munu menn frá Exton halda utan um tæki og tól. Og nemendur úr öllum þessum 23 skólum munu gera sitt allrabesta, hér verður metnaðurinn við völd eins og ævinlega. Örlygur vonast til að sem flestir komi og verði vitni að þessum viðburði, og það er ekki langt að fara víða að til Húsavíkur. Miðasala á keppnina er á www.tix.is

Í allri keppni eru dómarar og auðvitað líka skemmtiatriði, sem helst eiga að koma á óvart. En dómendur að þessu sinni eru Oddur Bjarni Þorkelsson, prestur, sjónvarpsmaður og Ljótur hálfviti, Greta Salóme, söngkona, tónskáld, fiðluleikari og Eurovisionfari, og Stefán Jakobsson, söngvari Dimmu, leiðsögumaður og fyrrum keppandi í Söngkeppni framhaldssólanna. Víðkunnir reynsluboltar öll sem eitt.

Við óskum öllum velgengni og góðrar skemmtunar.