Sólarleysið hefur ekki áhrif á starfsandann

Þrátt fyrir kuldalegt veðurfar í sumar eru unglingarnir í vinnuskólanum á Akureyri almennt ánægðir með starfið og láta sólarleysið ekki hafa áhrif á starfsandann.
„Það hefði kannski alveg verið skemmtilegra að hafa meiri sól, en það er ekkert mál að vinna í rigningu ef maður klæðir sig vel. Og ef það er kalt úti þá hitnar manni við það hreyfa sig,“ segir Íris Embla Þorsteinsdóttir, 14 ára, þegar blaðamaður Akureyri.net rakst á hóp af vinnuskólakrökkum úr Brekkuskóla, þar sem þau voru vopnuð hrífum á ferð um Brekkuna.
Lífið er meira en bara vinna og skóli. Íris (t.h) er á leið til Noregs síðar í mánuðinum og Sif (t.v) fer til Grikklands í október. Sif hefur áður unnið í verslun foreldra sinna Goblin á Glerártorgi en Vinnuskólinn er fyrsta vinnan hjá Sif.
Félagsskapurinn það besta við starfið
Íris Embla og stalla hennar, Sif Ívarsdóttir, eru sammála um að félagslegi þátturinn skipti mestu máli í vinnunni og það sé í raun frábært að geta verið í vinnu með vinum sínum og skólafélögum. „Félagsskapurinn er það skemmtilegasta við starfið í vinnuskólanum,“ segja þær. Báðar ætla þær að leggja hluta af laununum fyrir, en einnig að nýta hluta þeirra í að kaupa sér eitthvað skemmtilegt. Íris er á leið til Noregs síðar í mánuðinum og Sif fer til Grikklands í október. Aðspurðar hvort krakkarnir í vinnuskólanum séu almennt duglegir í vinnunni játa þær því en bæta við, hugsanlega í léttu gríni, að stelpurnar séu örlítið duglegri en strákarnir.
Franskar, maðkar og hress flokkstjóri
Egill Ásvarður Magnússon 13 ára og Emil Halldórsson 14 ára eru báðir í vinnuskólanum í fyrsta sinn. Þeir hafa meðal annars verið að slá gras í brekkum bæjarins. „Það er skemmtilegt og Heiðmar, flokkstjórinn okkar er mjög hress,“ segja þeir sáttir. Segjast þeir báðir ætla að nýta launin á skynsaman hátt, leggja eitthvað fyrir í framtíðaríbúð en einnig að kaupa sér eitthvað. Í ljós kemur að þeir eru báðir í annarri vinnu í sumar, Egill vinnur á DJ Grill þar sem hann setur m.a. franskar í poka og Emil selur maðka til veiðimanna. „Ég er að tína maðka og selja þá. Það gengur bara ágætlega.“
Egill (t.v) og Emil (t.h) eru í vinnuskólanum og bera flokkstjóranum vel söguna.