Fara í efni
Mannlíf

Snjóbíllinn Bangsi kominn „heim“

Sigurður Baldursson og hundurinn Elvis við snjóbílinn Bangsa. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Sigurður Baldursson og hundurinn Elvis við snjóbílinn Bangsa. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sigurður Baldursson, þúsundþjalasmiður og ævintýramaður á Akureyri, hefur eignast snjóbílinn Bangsa, sem Baldur faðir hans átti fyrir margt löngu og notaði mikið í fjallaferðum og við ýmis önnur verkefni. Bangsi hefur undanfarin ár verið á Samgönguminjasafni Skagafjarðar, þar sem ekki gafst tækifæri til að ráðast í nauðsynlegar lagfæringar – en nú er bíllinn kominn „heim“ og Sigurður hefur þegar hafist handa við að gera hann upp.

Baldur heitinn Sigurðsson, frumkvöðull í jöklaferðum hérlendis, átti á sínum tíma tvo snjóbíla sem margir bæjarbúar muna án efa eftir; Kisi var sá stóri, rauði en Bangsi gulur, töluvert minni.

Bangsi, sem er af Bombardier gerð og kom til landsins 1973, var brúkaður í verkefni af öllu mögulegu tagi; átta ár voru Baldur og hans fólk með bílinn á Vatnajökli og hann reyndist einnig mikilvægur heima á Akureyri og í nærsveitum þegar allt var á kafi í snjó yfir vetrartímann. „Við sóttum ófrískar konur út á Dalvík og fram í fjörð, keyrðum starfsfólk á spítalanum til vinnu, fluttum kindaskrokka í búðir og svo var Bangsi notaður þegar verið var að leggja Kröflulínu, til að flytja karlana fram og til baka,“ segir Sigurður Baldursson við Akureyri.net, þegar hann var beðinn um að nefna fáein dæmi.

Siggi segir Bangsa ekki eins illa farinn og hann óttaðist og er hinn bjartsýnasti. Spennandi verður að fylgjast með gangi mála á meðan hann gerir bílinn upp.

Stefanía Ármannsdóttir, móðir Sigurður Baldurssonar, við Bangsa.

Snjóbílar Baldurs Sigurðssonar, Kisi og Bangsi.

Bangsi og Kisi

Á Vatnajökli um 1980, Dyngufjöll og Herðubreið í baksýn.