Fara í efni
Mannlíf

Smullum saman strax á fyrstu æfingu

Sonja Stelly Gústafsdóttir á Svalbarðseyri um daginn þar sem hún og hundurinn Ellý æfðu sig. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Á dögunum fór fram æfing Norðurhóps leitarhunda Landsbjargar, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Æfingin fór fram á Svalbarðseyri og níu teymi hunda og manna æfðu þar snjóflóðaleit. Eins og nafnið gefur til kynna þjálfar hópurinn sig í að leita og bjarga.

Sonja Stelly Gústafsdóttir og hundurinn Ellý voru eitt af þeim teymum sem æfðu á Svalbarðseyri. Þær eru í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri.

Byrjunin varð svolítið sérstök

Sonja Stelly byrjaði sem nýliði í þjálfun fyrir sex árum. Hún var alltaf ákveðin í að þegar hún væri orðin fullgildur björgunarsveitarmaður ætlaði hún að fá sér hund og þjálfa hann sem leitarhund.

En byrjunin varð svolítið sérstök því nýliðinn Sonja Stelly eignaðist tíkina Ellý, fimm ára gamla, sem var þá þegar fullþjálfaður víðavangs- og snjóflóðaleitarhundur og með B-gráðu í sporaleit.

Um þetta segir Sonja Stelly: „Ég var búin með fyrsta árið í nýliðanum og ekki orðin fullgildur meðlimur. Þetta var áskorun. Við Ellý þurftum að byrja frá grunni og fara í gegnum allt prógrammið til að mega fara í útköll. Það var mikið að læra, svo sem hvernig á að búa sig, tala í talstöð; og vera með hund sem vissi miklu meira en ég hvað við vorum að fara að gera.“

Sonja Stelly bætir við: „ Ellý er frábær hundur. Ég man að fyrri eigandi sagði við mig að hún myndi sýna mér hvernig ætti að gera þetta. Það er mjög sérstakt að leitarhundur skipti um eiganda en strax á fyrstu æfingu smullum við saman.“

Starfslok Ellýjar

Ellý er blanda af Vorsteh og Border Collie. Hún verður 12 ára á þessu ári og er að ljúka sínum starfsferli eftir þennan vetur. „Það þykir mjög gott að vera svona hress orðin þetta gömul“, segir Sonja Stelly. „Það sem hefur einkennt Ellý er að hún er mjög vinnufús og gefst aldrei upp. „Hún er nánast óttalaus – hugrakkari en ég held ég!“

Lifandi vera sem á góða og slæma daga

Sonja Stelly og Ellý hafa t.d. farið í stórt og umfangsmikið útkall í Eyjafirði í desember 2019, þar sem Ellý stóð sig vel, en hvað er erfiðast við að eiga leitarhund?

„Það er áskorun að þú ert ekki bara að hugsa um þig heldur ertu með lifandi veru sem á góða daga og slæma daga“, svarar Sonja Stelly. „Ekki eins og að vera með fjórhjól sem fer inn í skúr og er geymt þar á milli æfinga og útkalla. En kostirnir eru miklu fleiri og þess vegna er maður að þessu“, segir Sonja Stelly að lokum.

Fyrri grein: „Hundur og maður eru teymi“

Ellý, sem er blanda af Vorsteh og Border Collie. Hún verður 12 ára á þessu ári og er að ljúka sínum starfsferli eftir þennan vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.