Fara í efni
Mannlíf

Skrefi nær fjölbýli við Norðurtorg

Fjölbýlishúsið sem umsækjendur æskja að byggja á lóð Austursíðu 4 er hér fremst í mynd, á horni Austursíðu og Síðubrautar. Myndin er skjáskot úr fylgiskjali með umsókninni.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar tók í vikunni fyrir endurnýjað erindi Baldurs Ólafs Svavarssonar, fyrir hönd Norðurtorgs ehf., með uppfærðri tillögu að uppbyggingu fjölbýlishúss á lóð Austursíðu 6. Breyta þarf aðalskipulagi eigi að leyfa umrædda uppbyggingu. Skipulagsráð tók jákvætt í erindið og felur skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem feli í sér að breyta landnotkun í verslun og þjónustu með heimild fyrir íbúðir.

Akureyri.net fjallaði í lok september um upphaflegu umsóknina um byggingu fjölbýlishúss þar sem sótt var um heimild til að reisa íbúðarhúsnæði á allt að sjö hæðum á áðurnefndri lóð - sjá hér. Samanburður á skýringarmyndum sem fylgdu umsókninni og sýndar voru í fréttinni í lok september annars vegar og skýringarmyndum sem fylgja endurnýjaðri umsókn og sjá má í þessari frétt hins vegar sýnir verulega breytt útlit byggingarinnar og meira útfærða hugmynd.


Afstöðumynd sem sýnir staðsetningu fyrirhugaðs fjölbýlishúss miðað við verslunarmiðsöðina Norðurtorg og skrifstofubyggingu. Skjáskot úr tillögunni. 

Að reisa fjölbýlishús á umferðareyju

Þegar málið kom fyrst til umfjöllunar í skipulagsráði lýsti Sindri Kristjánsson, fulltrúi S-lista, efasemdum um áformin og ítrekaði þær með bókun við afgreiðslu skipulagsráðs núna. Hann segir að með endurnýjaðri tillögu hafi verið reynt að eyða, eða að minnsta kosti draga verulega úr þeim efasemdum. Umhverfið sé að einhverju leyti manneskjuvænna í nýju tillögunni og vistlegra frá því sem áður var „þó svo að enn hafi tillagan á sér það yfirbragð að mínu mati að reisa eigi fjölbýlishús á umferðareyju,“ eins og hann orðar það í bókuninni. Aðrar efasemdir um tillöguna segir hann að standi enn eftir að mestu. „Til að bregðast við skorti á íbúðamarkaði í bænum með auknu lóðaframboði eru fjöldamörg önnur tækifæri, aðrar staðsetningar sem henta mun betur til íbúðauppbyggingar,“ segir Sindri einnig. 

Úr sjö hæðum í stallaða fimm hæða byggingu

Upphaflega var hugmyndina að reisa allt að sjö hæða fjölbýlishús, en byggingin er lægri í nýju tillögunni. Í umsókninni nú segir meðal annars um staðsetningu, útlit og form byggingarinnar samkvæmt uppfærðri tillögu: Hér er lagt til að byggingin verði staðsett fjærst núverandi íbúðabyggð, handan Austursíðu og húsið verði uppbrotið í grunn og hæð. Skipt í tvo arma sem saman mynda skjólgóðan og gróðursælan garð til suðurs og vesturs að Austursíðu og byggðinni í Síðuhverfi. Húsið verði jafnframt stallað í hæðina. Hæst fjærst Austursíðu en lækki að jaðri lóðarinnar og að Síðuhverfi. Þar af leiðandi verði það hæst á athafnasvæði Norðurtorgs að Austursíðu 2 og 6.


Skýringarmynd þar sem horft er yfir Norðurtorg og fyrirhugað fjölbýlishús úr suðaustri. Smellið á myndina til að opna pdf-skjal í fundagátt Akureyrarbæjar með fleiri myndum og teikningum.

Miðað er við að frá Austursíðu séð verði húsið að mestu 3-4 hæðir, en miðhlutinn (hornið) verði fimmta hæðin. Þá verði jarðhæðin felld inn í landið vegna hæðarmunar, sem eins konar sökkull undir húsið og snúi þá alfarið að verslunarsvæði við Norðurtorg. Þar verði mögulega verslun og þjónusta, en innan við og undir garðsvæði verði bílakjallari. 

Miðað við núverandi hugmynd verður húsið 7.500 fermetrar og gæti skipst gróflega þannig að íbúðarhlutinn verði 5.500 fermetrar og rúmi allt að 60 íbúðir af fjölbreytilegri stærð, en jarðhæðin að Norðurtorgi verði 1.500 fermetrar. Bílakjallarinn verði allt að 600 fermetrum með stæði fyrir um þriðjung íbúðanna. Þá verði 25 stæði á lóð norðan við íbúðarhúsið sem gæti nýst Norðurtorgi að deginum, eins og það er orðað í umsókninni. Að sama skapi nýtist bílastæði Norðurtorgs íbúum Austursíðu 4 utan verslunartíma. Lóðin sjálf, Austursíða 4, er samanlagt 5.361 fermetri og miðað við að nýtingarhlutfallið verði um 1,4.

„Hvað er vatninu hjá ykkur á Akureyri?“

Viðbrögð almennings við hugmyndinni sem fram kom í haust létu ekki á sér standa og eins og alltaf þegar um skipulagsmál er að ræða tjáðu mörg sig í athugasemdakerfi þegar frétt af Akureyri.net var deilt. Jón Ingi Cæsarsson, fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrarbæjar, tjáði sig í grein sem birtist á Akureyri.net undir fyrirsögninni Fráleitar hugmyndir við AustursíðuHann hóf greinina á því að vitna í slíka athugasemd:

Einhver spurði í athugasemdakerfum „hvað er í vatninu hjá ykkur á Akureyri?“

Tilefnið var undarleg afgreiðsla Skipulagsráðs um 7 hæða hús nánast á bílastæði við Norðurtorg. Auðvitað koma allskonar tillögur til skipulagsyfirvalda um breytingar á skipulagi. En að Skipulagsráð taki jákvætt í að breyta AÐALSKIPULAGI vegna byggingar háhýsis með fjölda íbúða á bílastæði við verslunarmiðstöð er alllt að því hlægilegt.

Jón Ingi lauk greininni svona: 

Ég hef trú á að þessi hugmynd verði blásin af, annars er ekki allt í lagi hjá Akureyrarbæ.