Fara í efni
Mannlíf

Skoppa og Skrítla í Sambíói um helgina

Skoppa og Skrítla í Sambíói um helgina

Vinkonurnar Skoppa og Skrítla hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mörgum af yngstu kynslóðinni. Þær settu upp stórsýningu í Hörpu í fyrrahaust, hugðust endurtaka leikinn í nóvember en kórónuveiran kom í veg fyrir það. Þær snéru hins vegar á veiruna og birtast í staðinn á bíótjaldi á Akureyri um helgina. Bíógestir annars staðar á landinu fá svo að njóta frá og með næsta miðvikudegi.

„Sem betur fer vorum við svo forsjálar að taka upp sýninguna í fyrra þannig að nú geta þær vinkonur reddað málum með því að hoppa úr Hörpu í Sambíóin. Það er nefnilega alveg ómissandi að eiga töfrandi jólastund með litlu ungunum,“ segir Hrefna Hallgrímsdóttir, besta vonkona Skrítlu, í samtali við Akureyri.net.

Sýningin heitir Brot af því besta og er yfirlitssýning síðastliðinna 15 ára hjá þeim Skoppu og Skrítlu. „Þær eru að sjálfsögðu á sviðinu með bestu vinunum þeim Lúsí, Zúmma, Bakara Svakara og öllum hinum ásamt 28 börnum á aldrinum þriggja til 13 ára, sem bregða sér í hin ýmsu hlutverk. Við frumsýndum í Hörpu í nóvember 2019, sýningin gekk vonum framar fyrir fullu húsi, áhorfendur voru því mörg þúsund og vegna fjölda áskorana ætluðum við að endurtaka leikinn núna í nóvember en vegna veirufárs varð ekkert af því.

Þar sem sýningin náði ekki að fara á svið á Akureyri langar Skoppu og Skrítlu að veita frábærum vinum sínum norðan heiða þann heiður að fá fyrst að sjá bíómyndina,“ segir önnur hvor þeirra. Forsýning á myndinni verður í Sambíó á Akureyri á laugardaginn og vinkonurnar verða á staðnum, vel sprittaðar og með grímur að sögn, „og taka fagnandi á móti litlu vinkonunum og vinunum.“

Myndin verður svo frumsýnd um allt land 16. desember. Forsala er hafin á sambio.is því vegna fjöldatakmarkana komast fáir á hverja sýningu.

„Við hvetjum þau allra yngstu, eins árs og eldri, til að koma og æfa sig í bíó rétt eins og í leikhúsinu. Myndin er aðeins klukkutími og hljóðið stillt lægra til að vernda litlu eyrun,“ sagði annað hvort Hrefna eða Skrítla – stundum er nánast ómögulegt að greina hvor er hvað ...