Fara í efni
Mannlíf

Skíðagönguæði runnið á landann

Freydís Heba Konráðsdóttir kenndi á gönguskíðanámskeiði í Kjarnaskógi í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgr…
Freydís Heba Konráðsdóttir kenndi á gönguskíðanámskeiði í Kjarnaskógi í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sífellt fleiri bregða sér á gönguskíði; sumir viðmælendur Akureyri.net í bransanum orða það svo að sprenging hafi orðið í þeim efnum. Seljandi gönguskíða tekur undir það, segir „æði“ hafa gripið um sig meðal landsmanna, ekki ósvipað og í hjólreiðum undanfarin ár.

Kjarnaskógur er mjög vinsæll meðal gönguskíðafólks, eins og áður hefur verið fjallað um hér. Þar rakst blaðamaður á Freydísi Hebu Konráðsdóttur í gærdag, hún hafði þá nýlokið við að leiðbeina hópi fólks fyrstu sporin. Freydís var þar á vegum KEA hótels og hópur á vegum Icelandair hótelsins var annars staðar í skóginum.

„Hótelin bjóða fólki gistingu og skíðagöngunámskeið og það hefur reynst mjög vinsælt. Við byrjuðum um síðustu helgi og höldum áfram næstu helgar. Ég er með litla hópa á þriggja klukkutíma námskeiði þar sem farið er yfir helstu tækniatriði fyrir byrjendur, því þetta eru nánast allt fólk sem er að byrja,“ sagði Freydís Heba við Akureyri.net.

„Það hefur orðið sprenging í vinsældum gönguskíða,“ segir hún. „KEA hótel og Icelandair hótel bjóða upp á þetta hér í bænum, ég veit að Sigló hótel og hótelið á Húsavík eru líka með svona námskeið og alls staðar er fullt!“ Freydís Heba segir að allir á námskeiðinu hjá henni séu utanbæjarmenn.

Freydís er gömul gönguskíðakempa og hóf að taka að sér einkakennslu fyrir tveimur árum, auk þess að þjálfa hjólreiðamenn. „Nú er ég í samstarfi við hótel KEA og það hefur gengið mjög vel. Þetta eru oft vinahópar sem eru þá í sinni kúlu og ég með grímu eða passa upp á bil. Það gengur mjög vel og hér er nóg pláss í brautunum. Hópurinn frá Icelandair hótelinu átti að vera uppi í fjalli í dag en þangað var ófært þannig að hann var líka hér í skóginum og það var ekkert mál.“

Brautir út um allt

„Starfsmenn Skógræktarfélagsins eru svo frábærir að þeir voru búnir að troða fullt af brautum klukkan 10 í morgun, mun fleiri en vanalega, enda er mikill snjór. Þeir troða ekki bara á stígunum heldur er ógrynni af sporum víða inni í skóginum, og svo bæði á Hömrum og í Naustaborgum,“ sagði Freydís Heba.

Hún sagði, aðspurð, að fólk virtist ekkert skemmta sér síður vel þótt veðrið væri leiðinlegt eins og um helgina. „Ég vona það að minnsta kosti. Maður verður ennþá betri ef maður æfir sig við vondar aðstæður!“

Sífellt fleiri ganga á skíðum að staðaldri og margir hafa á orði að það sé allt að því einstakt að stunda þá skemmtilegu og hollu útivist í Kjarnaskógi, þeirri paradís Akureyringa. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.