Fara í efni
Mannlíf

Skemmtilegasta sem ég hef komist í

Dalvíkingurinn Elvar Þór Antonsson smíðar skipalíkön í fullustarfi á veturna. Sumarið í sumar fer í að smíða likan af Sléttbaki og Svalbaki, Stellunum svokölluðu. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Elvar Þór Antonsson er ekki lærður smiður en samt er hann skipasmiður, flugvélasmiður, húsasmiður og örugglega eitthvað fleira. Til að gæta nákvæmni verðum við þó að nefna að hann smíðar módel af skipum, flugvélum, húsum og fleiru. Hann byrjaði að prófa sig áfram með slíkt fyrir 30 árum og núna undanfarin fimm ár stundar hann slíka smíði í fullu starfi á veturna.

Elvar Þór hefur tekið að sér að smíða líkan af tveimur skipum sem eiga sér merkilegan sess í útgerðarsögu Akureyringa, Stellunum svokölluðu, skipum sem hétu Stella Kristina og Stella Karina og voru í eigu Færeyinga en keypt til Akureyrar og hlutu nöfnin Sléttbakur og Svalbakur. Samningur um þessa skipasmíð var undirritaður á lóð ÚA-hússins í gær.

„Það eru að verða ein 30 ár síðan ég byrjaði að gera tilraunir með þetta og datt niður á hugverk sem ég hef verið að vinna með í þessu, bæði með tré- og stálskip, og þetta er bara það skemmtilegasta sem ég hef komist í um ævina, að gera þetta," sagði Elvar Þór eftir að hann hafði undirritað samninginn um smíðina. Þetta byrjaði sem tómstundagaman, en þróaðist yfir í eitthvað annað og meira. 

„Þannig var að ég byrjaði með þetta meðfram fullri vinnu og gerði þetta á kvöldin og um helgar. Síðan tók ég tíu ára hlé frá þessu, en svo fer að koma fyrirspurn eftir þessu aftur og hún jókst bara eftir að það verk kom í ljós sem ég kláraði og það endaði bara þannig að ég er búinn að vera í þessu í fimm ár á vetrum, að smíða skipalíkön, í fullu starfi í dag,“ segir hann. Orðstírinn hefur borist og verkefnin halda áfram að koma. 

Aðspurður segir Elvar að líkan eins og hann mun smíða af Stellunum verði í hlutföllunum 1:50 þannig að heildarlengd líkansins verði 1,25 metrar. Það segir hann vera góða stærð, skemmtilega til sýningar, bæði reisn yfir því og hentug stærð. Skipin eru tvö, en líkanið verður eitt og nöfnin Slétttbakur EA 304 og Svalbakur EA 302 koma hvort á sína lunninguna. 

Það kemur kannski einhverjum á óvart að standa þurfi fyrir sérstakri söfnun til að standa straum af kostnaði við smíðina, en svona líkan verður ekki hrist fram úr erminni. Elvar Þór segir smíði skipslíkans geta tekið frá 400 upp í 7-800 vinnustundir. Það er enda mikil kúnst að gera þetta rétt því það þýðir ekkert að stytta sér leið við svona verkefni. Sjómenn sem voru á þessum skipum og aðrir sem þekktu þau vel myndu sjá á augabragði ef reynt yrði að breyta einhverju til að auðvelda verkið. Smíðin verður að vera nákvæm og það verður hún því svo skemmtilega vill til að skipasmíðastöðin Soviksnes við Álasund í Noregi brást vel við þegar til hennar var leitað og gaf undirbúningshópnum teikningarnar af skipunum og gerir þannig mögulegt að fara sem nákvæmast eftir raunverulegu útliti skipanna. Elvar Þór vinnur nú að smíði líkans af Húna II sem afhjúpað verður eftir rúman mánuð.


Sigfús Ólafur Helgason flutti ávarp fyrir undirritun samningsins og fór yfir forsöguna, ástæður og fleira varðandi verkefnið. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Sigfús Ólafur Helgason er aðalhvatamaðurinn að verkefninu og verkefnisstjóri. Sú hugmynd kviknaði í vetur að koma af stað söfnun til að standa straum af kostnaði við að smíða líkan af Svalbak og Sléttbak og tímasetningin engin tilviljun því 1. nóvember á þessu ári verða 50 ár liðin frá því að skipunum var siglt inn Eyjafjörð í fyrsta skipti. 

Fór í niðurrif á Indlandi

Sigfús nefndi ástæðuna fyrir því að hugmyndin kviknaði og verkefnið fór af stað. „Fyrst ber að nefna að Stellurnar svokölluðu Svalbakur og Sléttbakur voru að margra mati fallegustu skuttogararar sem við Íslendingar höfum eignast og oft hefur það verið rætt manna á millum að gaman væri að eignast líkan af skipunum. Í annan stað, og kannski einmitt það sem endanlega fékk okkur til að hefja þessa vegferð, var einmitt sú frétt er barst á öldum ljósvakans í byrjun mars sl. að Svalbakur gamli, sem kominn var undir rússneskan fána, hefði verið keyrður upp í sandfjöruna í Alang á Indlandi til niðurrifs, og þar með væru Stellurnar endanlega farnar, en hin Stellan okkar, Sléttbak sem svo hét Akureyrin og að endingu Snæfell var lagt og fór svo að lokum að ég held til Belgíu í niðurrif fyrir nokkrum árum. Og í þriðja lagi, að þessu er hér að framan sögðu, sem ástæða fyrir þeirri athöfn sem nú er haldin, og ákvörðun sem nú er tekin, þá eigum við Eyfirðingar svo gott að að eiga mikinn hagleiksmann sem hefur á undanförnum árum smíðað stórglæsileg líkön af skipum, maður að nafni Elvar Þór Antonsson á Dalvík, og þegar þetta allt er skoðað var það niðurstaða nokkurra félaga okkar að láta á það reyna hvort til væri samtakamáttur meðal sjómanna sem fyrrum voru á Svalbak eða Sléttbak, sem væri til í að safna fyrir smíði líkans af skipunum.“

Fjörutíu Færeyingar og fullt af sögum og myndum

Eins og fram kom í frétt okkar í gær var stofnaður Facebook-hópur til að kalla saman áhugafólk um þessa smíði og til að setja af stað fjársöfnun fyrir kostnaðinum við smíðina. Þegar undirritun samningsins fór fram voru komnir yfir 300 meðlimir í Facebook-hópinn Stellurnar, þar af yfir 40 Færeyingar og sagði Sigfús frá því að frá þeim hefðu komið bæði myndir og sögur tengdar skipunum þó ekki hafi þau stoppað lengi í Færeyjum áður en Akureyringar keyptu þau. 

„Það sem er líka svo gaman að segja frá að í þessu ferli sem eins og ég sagði áðan hefur einungis verið rúmir tveir mánuðir, þá hafa svo margar sögur verið sagðar, svo margar myndir frá árunum á Stellunum komið fram í dagsljósið sem aldrei hafa sést áður, og greinlega er sterk taug er í mörgum af okkur sem á skipunum voru og minningarnar bæði margar, miklar og góðar,“ sagði Sigfús einnig í ávarpi fyrir undirritun skipasmíðasamningsins.

Samkvæmt samningnum á smíðinni að vera lokið og líkanið afhjúpað við athöfn þann 1. nóvember, en þá verða 50 ár frá því að þeim var fyrst siglt inn Eyjafjörðinn. Nýja skipið kemur þó væntanlega ekki siglandi inn Eyjafjörðinn þó það þurfi einhvern veginn að komast frá Dalvík til Akureyrar. 


Skipasmíðasamningur undirritaður. Sigfús Ólafur Helgason og Elvar Þór Antonsson. Mynd: Haraldur Ingólfsson.