Fara í efni
Mannlíf

Sjoppufjölskyldan tæmir fullar geymslur

Fagurkerinn Almar Alfreðsson er á fullu að undirbúa Sumarmarkað Sjoppufjölskyldunnar sem opnaður verður í Deiglunni á morgun, föstudag.

Það verður líf og fjör í Deiglunni í Listagilinu um helgina þegar Sjoppufjölskyldan og vinir halda sinn margfræga sumarmarkað. Kennir þar ýmissa grasa og hægt að gera góð kaup, m.a. á hönnunarvörum.

Markaðurinn á sér óformlegar rætur í söfnunaráhuga fagurkerans Almars Alfreðssonar, sem rekur líklega minnstu hönnunarverslun Íslands á  Akureyri ásamt eiginkonu sinni, Heiðu Björk Vilhjálmsdóttir,  Sjoppuna vöruhús. „Ég hef lengi safnað alls konar hönnunarvörum, ekki síst ljósum og húsgögnum. En það verður allt mögulegt til sölu á þessum markaði um helgina, til að mynda listaverk, bækur, fatnaður, barnadót og fleira,“ segir Almar og bætir við að nýjar vörur muni bætast við markaðinn daglega á meðan hann stendur yfir. „Við vorum með þennan markað reglulega að Krókeyrarnöf en höfum ekki haldið markaðinn síðan 2023, svo það hefur aðeins safnast upp hjá okkur. Geymslurnar eru orðnar fullar svo nú þarf að tæma þær.“

Sindrastólar og sixtísljós

Aðspurður út í bitastæða muni á markaðinum nefnir Almar til dæmis kúluljós frá sjöunda áratugnum með segulfestingum, íslenska Sindrastóla sem og íslenska skötustóla. Þá leynast líka ýmis einstök hönnunarverk inn á milli sem ratað hafa í hendur Almars í gegnum tíðina. „Ég hef aldrei viljað selja sumt af þessu, þetta eru hlutir sem heilla mann en þurfa nú að víkja vegna plássleysis,“ segir Almar og bætir við að markaðurinn sé ákveðin hreinsun. 


Almar er safnari í eðli sínu og hefur sankað að sér alls konar skemmtilegum ljósum í gegn um tíðina. Eitthvað af þeim verður til sölu á markaðinum. 

Skapandi útrás í Sjoppunni

Almar er annars ekki ókunnugur sölumennsku því hann hefur rekið Sjoppuna í 11 ár en hún er staðsett fyrir neðan heimili hans í Gilinu rétt hjá Deiglunni. „Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast í Sjoppunni, nýir samstarfsaðilar að bætast við og nýjar vörur,“ segir Almar sem heldur þó tryggð við upphaflega konseptið og ætlar sér ekki að stækka þessa minnstu verslun bæjarins.

Aðspurður hvort hann sé sjálfur eitthvað að hanna, en veggplattarnir hans Jón í lit urðu geysivinsæl heimilisvara þegar þeir komu á markað árið 2011, segir Almar að hann hafi reyndar verið að dusta rykið af gömlum hönnunarhugmyndum. Það sé því aldrei að vita hvað komi út úr því, en jafnframt segir hann að Sjoppan gefi honum ákveðna skapandi útrás. 

    • Sumarmarkaður Sjoppufjölskyldunnar verður opinn 4.-6. júlí milli kl. 11 og 17 í Deiglunni – og kannski lengur ef stemmingin er góð. Enginn posi er á staðnum en hægt að millifæra.