Fara í efni
Mannlíf

Sjö sýndu áhuga á einbýlum í Móahverfi

Hagamói 10, sem er fremst á myndinni, var eftirsóttasta lóðin í útboðinu. Mynd: Akureyrarbær.

Sex einstaklingar og einn lögaðili sendu inn tilboð í einbýlishúsalóðir í Móahverfi, sem Akureyrarbær auglýsti lausar til umsóknar á dögunum. Alls voru 18 lóðir auglýstar og bárust boð í 15 þeirra, því sumir buðu í fleiri en eina lóð.

Eins og kom fram í frétt á akureyri.net nýverið var þetta ekki í fyrsta sinn sem bærinn býður þessar lóðir út og af viðbrögðunum er ljóst að áfram verða einhverjar einbýlishúsalóðir lausar í hinu nýja Móahverfi.

Hagamói 10 eftirsóttasta lóðin

Sá einstaklingur sem stórtækastur var í útboðinu bauð í 6 lóðir og átti hæsta tilboð í þær allar. Ef að líkum lætur getur hann þá valið um það hvaða lóð af þessum sex hann festir sér. Aðrir einstaklingar buðu í 1-4 lóðir. Sá lögaðili sem sendi inn tilboð bauð einnig í sex lóðir en átti aldrei hæsta tilboðið.

Eftirsóttasta lóðin í útboðinu reyndist Hagamói 10, en fimm af sjö tilboðsgjöfum buðu í þá lóð. Áður en til formlegrar úthlutunar lóðanna kemur þurfa tilboðsgjafar að segja til um hvort og þá hvaða lóð þeir vilja kaupa þannig að ekki er endanlega ljóst hversu margar lóðir munu ganga út.

Niðurstaða lóðaútboðsins