Fara í efni
Mannlíf

Sigurður Marinó leggur fótboltaskóna á hilluna

Sigurður Marinó Kristjánsson, til hægri, og Sveinn Elías Jónsson formaður knattspyrnudeildar Þórs.

Sig­urður Marinó Kristjáns­son hef­ur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hill­una, 32 ára að aldri. Hann lék allan ferilinn með Þór, nema sumarið 2018 með Magna á Grenivík og einn leik með Grenivíkurliðinu í sumar sem lánsmaður frá Þór.

Sigurður Marinó er einn leikjahæsti leikmaður í sögu Þórs. Hann á að baki 331 leik í öll­um mótum, þar af 56 leiki í efstu deild. Hann lék fyrst með meist­ara­flokki í næst efstu deild Íslandsmótsins árið 2007, þá aðeins 16 ára.

Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs, heiðraði Sigurð Marinó fyrir leikinn gegn Grindvíkingum á laugardaginn í lokaumferð Lengjudeildar Íslandsmótsins.

Sigurður Marinó er annar tveggja leikmanna sem hafa skorað þrennu fyr­ir ís­lenskt fé­lag í Evr­ópu­keppni; hann afrekaði það þegar Þórsarar sigruðu írska liðið Bohem­ians á Þórsvellinum 5:1 árið 2012. Sveinn afhenti Sigurði m.a. tvær innrammaðar ljósmyndir; annars vegar af Sigurði snúa frá marki eftir að hafa skorað eitt markanna í Evrópuleiknum og hinsvegar af honum í fagnaðarlátunum eftir leik.

Sigurður Marinó augnabliki eftir að hann gerði eitt markanna þriggja í Evrópuleiknum gegn Bohemians árið 2012. Önnur myndanna sem knattspyrnudeild Þórs færði Sigurði innrammaða. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson