Sigmundur: Gömul skita gerði besta bragðið

Það gat aldrei orðið svo að öllum aflanum sem pabbi bar að landi eftir laxveiði sumarsins í Fnjóská og Laxá í Aðaldal væri sporðrennt ferskum ofan í kviðinn á heimilisfólkinu í Espilundi. Því slíkar voru birgðirnar sem keyrðar voru í kössum yfir Vaðlaheiðina að taka varð til ráða af öðru tagi, en það var grafið, pæklað og hert, en einkum þó reykt að ráði Þingeyinga, sem þóttu lagnastir með laxfiskinn.
Þannig hefst 97. pistill Sigmundar Ernis Rúnarssonar, rithöfundar, sjónvarpsmanns og alþingismanns, í röðinni Akureyri æsku minnar. Nýr pistill birtist á Akureyri.net á hverjum mánudegi.
Ástæða þessa búhnykks á Syðri-Brekkunni var að pabbi taldi fram fyrir marga bændur og þeir voru yfirleitt svo ánægðir með framtalið að kasta mætti línu frítt í fljótin austan heiðar. Þeim mun oftar keyrðum við feðgar austur yfir ása.
Pistill Sigmundar í dag: Reykt