Fara í efni
Mannlíf

Selja ferskt grænmeti beint úr brekkunni

Ingólfur Kristjánsson og Indíana Þórsteinsdóttir, grænmetisbændur hjá Sveitinni okkar. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Indíana Þórsteinsdóttir og Ingólfur Kristjánsson fluttu heim til Íslands eftir að búa í Noregi fyrir fjórum árum síðan. Þau settust fyrst að í sveitinni á æskuheimili Indíönu, Vallakoti í Reykjadal. „Þar byrjuðum við að rækta grænmeti, og höfum verið að gera það síðan,“ segir Indíana. „Í ár höfum við svo fært okkur í Leifshús á Svalbarðsströnd og stofnað fyrirtækið Sveitin okkar, þar sem við ræktum og seljum grænmeti.“

Draumurinn er að fara svo í framtíðinni að þróa vörur úr grænmetinu okkar

„Við erum aðallega með spergilkál, svo erum við með blómkál, hvítkál, grænkál, rófur og rauðrófur, hnúðkál, rauðkál, radísur, sellerí, gulrætur og kartöflur,“ segir Ingólfur. „Við bjóðum upp á áskriftarpakka og þá fær fólk vikulega úrval af uppskeru vikunnar. Auk þess erum við með litla búð í gámi hérna fyrir ofan garðana, þar sem fólk getur komið og verslað beint úr uppskerunni.“

 

Ósjaldan finnur þú Ingólf og Indíönu berfætt í garðinum, að tína ferskt grænmeti. Þau nota ekki eitur, segir Indíana. Mynd: RH

Vilja hægan lífsstíl og sjálfbærni

„Okkur langaði að vera okkar eigin herra og frú,“ segir Indíana, aðspurð um ástæður þess að þau fóru út í grænmetisrækt. „Svo blandast það löngun til þess að lifa hægum lífsstíl og borða hreina fæðu. Svo langaði okkur að vera bændur og prófuðum garðræktina til að byrja með með foreldrum mínum í Vallakoti. Það gekk vel, og í ár erum við að leigja hérna í Leifshúsum og prófa okkur áfram hér.“ 

„Við erum að reyna að hugsa út fyrir kassann, hvað við getum gert til þess að geta verið bændur,“ segir Ingólfur. „Ein leið er að vera grænmetisbændur. Við höfum líka gert tilraunir í gróðurhúsi með krydd til dæmis. Við stefnum í rauninni að því að finna okkur stað þar sem við getum komið okkur fyrir og geta verið bændur á ársgrundvelli.“

Gefandi að vinna með náttúrunni

„Mér finnst það svo gefandi, að setja tíma og orku í eitthvað sem þú sérð vaxa,“ segir Ingólfur, og Indíana tekur undir það. „Það er svo gaman að vinna með náttúrunni. Það hentar okkur vel að brasa úti í allskonar verkefnum,“ bætir hún við. 

„Draumurinn er að fara svo í framtíðinni að þróa vörur úr grænmetinu okkar,“ segir Indíana. „Við höfum prófað að búa til súrkál og súrsa rauðrófur, gert rauðkál og fleira, sem dæmi.“

 

Dóttir Indíönu og Ingólfs er 4 ára og hjálpar mömmu og pabba í garðinum. Útsýnið út Eyjafjörðinn frá Leifshúsum er stórkostlegt. Mynd: RH

Spergilkálið og rauðrófan í uppáhaldi

En hvað er í uppáhaldi hjá bændnum sjálfum? „Persónulega er ég hrifnastur af rauðrófunni,“ segir Ingólfur. Indíana tekur undir það og segir að rauðrófurnar þeirra séu til dæmis mjög góðar hráar. „Við setjum þær á pizzu og allskonar. Spergilkálið okkar er líka í miklu uppáhaldi, það er svo ferskt og gott. Við notum það í allt mögulegt.“

Búðin hjá Indu og Ingó eins og þau eru oft kölluð, er opnuð á morgnana um tíuleytið. „Þá setjum við grænmetið fram og svo lokum við um níu áður en við förum að sofa,“ segir Indíana. „Við erum í rauninni ekki með viðveru í búðinni, það er sjálfsafgreiðsla og greiðsluupplýsingar á veggnum. Við erum þó langoftast að brasa hérna í brekkunni og alveg til viðtals ef koma gestir í búðina!“

Áhugasöm um starfið og vörurnar hjá Sveitinni okkar er bent á samfélagsmiðlana: