Fara í efni
Mannlíf

Selir við Leirubrúna gleðja Akureyringa

Selirnir sunnan við brúna á Leiruveginum. Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Nokkrir selir hafa glatt augu Akureyringa síðustu daga, þar sem þeir liggja sunnan brúarinnar á Leiruveginum. Eyþór Ingi Jónsson, organisti og náttúruljósmyndari, er einn þeirra sem hafa fylgst með vel.

„Það er gaman að sjá hvað bann við seladrápi hefur haft jákvæð áhrif hér við Akureyri. Landselir, sem og hánorrænu frændur þeirra sem hingað flækjast fá nú að vera í friði og eru um leið orðnir að aðdráttarafli fyrir marga,“ sagði Eyþór Ingi á Facebook síðu sinni í dag. Þar birti hann þessa fallegu mynd og gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að nota hana hér.

Eyþór segir að minnsta kosti sex landseli og hringanóra hafa verið hér undanfarið. „Þeir liggja gjarnan á ís sunnan brúar á Leiruvegi. Þeir hafa smám saman orðið rólegri undanfarna daga og eru farnir að venjast því að fólk stoppi og skoði þá.“ Margir gera það, segir hann og nefnir að þegar þeir Daníel Starrason mynduðu selina í dag hafi þó nokkuð margir stoppað til að fylgast með dýrunum.

Eyþór segist þess fullviss að fólk geti skoðað selina á sama stað á morgun. Ekki sé verra að hafa með sér sjónauka; fólk geti ekki gert ráð fyrir að sjá þá jafnvel vel og á þessari ljósmynd því hún sé tekin með aðdráttarlinsu úr töluverðri fjarlægð.

„Best er að vera ekki með læti í kring um þá. Hreyfa sig hægt og vera ekkert að kalla. Þeir vita af manni, en læra að treysta ef rólega er farið,“ segir Eyþór. Hann nefnir að fyrir rúmum tveimur vikum hafi það tekið hann klukkustund að nálgast selina hægt og rólega, einn meter í einu, án þess að þeir yrðu of stressaðir. „Í dag gat ég gengið í gott færi án þess að stoppa.“ Fyrir tveimur vikum fældust þeir vegna hurðaskella og láta í fólki sem fylgdist með þeim en í dag er hægt, segir Eyþór, að stoppa við brúna og fara út úr bílnum án þess að þeir stressist. „Ef þeir eru mjög nálægt veginum, innan við 50 metra munu þeir samt væntanlega láta sig hverfa ef farið er úr bíl rétt við þá. Skoðið endilega þessi fallegu dýr og nálgist þá varlega svo sem flestir geti notið þeirra,“ segir Eyþór Ingi Jónsson.