Fara í efni
Mannlíf

Samvera skapar umhyggju og jákvætt samfélag

Hluti starfsmanna Rafeyrar er nú staddur í sólinni á Tenerife en fyrirtækið býður starfsmönnum sínum erlendis á tveggja ára fresti. Mynd: Sigurður Már Haraldsson

Tengsl sem myndast í kaffitímum á vinnustað og í starfsmannaferðum eru afar mikilvæg fyrir velgengni fyrirtækisins að sögn starfsmannastjóra Rafeyrar. Um 60 manns frá fyrirtækinu eru nú staddir á Tenerife þar sem þeir njóta lífsins og styrkja tengslin.

„Það er ofur þrýstingur á að stytta vinnuvikuna svo fólk komist fyrr heim til þess að lifa. En við lifum líka í vinnunni, vinnustaðurinn er samfélag og við höfum ekki verið sáttir við þá sýn að leggja neysluhlé niður svo fólk komist fyrr heim, því það skiptir ekki síður máli að menn eigi notalegan tíma saman í vinnunni en heima með fjölskyldunni. Þess vegna höfum við ekki viljað stytta vinnuvikuna á kostnað kaffitímans,“ segir Hannes Garðarsson, skrifstofu-, öryggis- og gæðastjóri hjá Rafeyri.

Hannes Garðarsson, skrifstofu-, öryggis- og gæðastjóri Rafeyrar, til vinstri, og Kristinn Hreinsson framkvæmdastjóri, sælir og glaðir í kaffitíma einn morguninn fyrr á árinu þegar VÍS færði starfsmönnum forláta tertu í tilefni forvarnaverðlaunanna. Verðlaunagripurinn er aftan við tertuna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Betri sjálfsmynd í jákvæðu umhverfi

Hannes veit hvað hann syngur því Rafeyri hefur í 13 ár verið á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki, eitt fárra fyrirtækja á landsvísu sem hafa uppfyllt skilyrðin fyrir því að komast á listann frá því mælingar hófust. Þá hlaut Rafeyri einnig forvarnarverðlaun VÍS 2023 en tíðni vinnuslysa hjá fyrirtækinu er með því lægsta sem sést hefur í bókum VÍS frá upphafi.

„Ég er sannfærður um að litlir hlutir eins og sameiginlegur kaffitími hafi sitt að segja í þessu. Samvera skapar umhyggju og jákvætt samfélag. Ef menn bera umhyggju fyrir hvor öðrum þá gæta þeir betur hvers annars. Þá fá menn betri sjálfsmynd í jákvæðu umhverfi sem skilar sér í öruggari starfsháttum en það skiptir jú mestu máli að koma heill heim í lok dags,“ segir Hannes og bætir við að starfsfólk Rafeyrar sé mjög meðvitað um áhættuþætti í umhverfi sínu í gegnum öryggis-og forvarnarþjálfun. Áherslur Rafeyrar í þeim efnum ganga út á það að vekja starfsmenn til vitundar um mikilvægi öruggra starfshátta og er þeim bent á að taka skynsamlega áhættu ef á þarf að halda. Hver og einn starfsmaður sé hinn eiginlegi „öryggisstjóri“ með ábyrgð á sjálfum sér og þeim sem eru í vinnuumhverfi hans hverju sinni. „Það er nátengt að skila góðu verki og að vinna verkið af öryggi.“

Hluti starfsmanna Rafeyrar á Akureyrarflugvelli á leið til Tenerife. Mynd: Sigurður Már Haraldsson

Tenerife undanfarinn áratug

Hjá Rafeyri starfa nú um 80 manns, 72 starfsmenn á Akureyri og 10 starfsmenn á Eskifirði en Rafeyri keypti i Rafmagnsverkstæði Andrésar á Eskifirði að fullu fyrir þremur árum. Að sögn Hannesar er verkefnastaðan mjög góð og bara á þessu ári hafa 17 nýir starfsmenn bæst í hópinn. Eins og áður segir þá er morgunkaffið mikilvægt á vinnustaðnum, ekki síst á föstudögum en þá er gert aðeins betur við mannskapinn og velunnarar fyrirtækisins mæta þá líka oft í kaffi. Þá eru haldin golfmót, sameiginleg grill og Þorláksmessugleði, svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem á tveggja ára fresti hefur fyrirtækið boðið starfsmönnum sínum erlendis. Allt er þetta gert til þess að styrkja starfsandann innan fyrirtækisins. Undanfarinn áratug hefur leiðin legið til Tenerife. Fyrirtækið greiðir flug og hótel en starfsmönnum gefst kostur á því að safna fyrir flugmiða handa makanum líka með því að safna saman afgangs kopar og selja.

Rafeyri er með starfsstöð á Akureyri og Eskifirði. Starfsmannahópnum er skipt upp þegar farið er erlendis. Fyrri hópurinn er úti á Tenerife núna og seinni hópurinn fer í nóvember. Utanlandferðirnar eru hugsaðar til að styrkja starfsandann og efla tengsl meðal starfsmanna. Mynd: Sigurður Már Haraldsson

„Fólk hefur almennt verið ánægt með Tenerife, það er gott að komast aðeins í sól og hita. Þessi kostur hefur hentað vel þar sem það hefur verið beint flug í boði þangað. Í þessum ferðum hefur fyrirtækið ekki staðið fyrir neinni dagskrá heldur er treyst á frumkvæði einstaklingssins. Síðast var t.d. farið í Mat og vínsmökkun með Tenerifeferðum og svo er alltaf vinsælt hjá einhverjum að fara í go kart saman eða taka golfhring,“ segir Hannes. Ferðin í ár er 10 nætur en skipta þarf mannskapnum upp í tvo hópa og fer seinni hópurinn fer út í nóvember. Gaman er að segja frá því að Hannes hóf einmitt starfsferil sinn hjá Rafeyri fyrir 17 árum síðan í tengslum við utanlandsferð starfsmanna en þá var hann ráðinn til þess að svara í símann á meðan allir voru í burtu. „En það er ekki hægt í dag. Við höfum það mörg verkefni í gangi og skyldur gagnvart okkar viðskiptavinum að það er ekki bara hægt að fara og skella í lás og þess vegna skiptum við hópnum upp.“

Kökur í kaffitíma Rafeyrar á föstudegi. Hér sést líka glitta í forvarnarverðlaun VÍS 2023 sem fyrirtækið hlaut fyrr á árinu.

Rafeyri fagnaði nýlega 29 ára afmæli sínu. Kaffitímarnir eru mikilvægir hjá fyrirtækinu til að styrkja tengslin meðan starfsmanna og á föstudögum eru þeir yfirleitt veglegir.