Fara í efni
Mannlíf

Sælureiturinn í litlu, gulu verbúðinni á Hjalteyri

Ljósmyndir: Rakel Hinriksdóttir

„Þegar ég átti að eiga tuttugu og fimm ára afmæli, spurðu pabbi og mamma hvað ég vildi fá í afmælisgjöf,“ segir Hrönn Einarsdóttir. „Það eina sem ég vildi, var sérstakt málverk eftir pabba. Ég held að þau hafi verið að spá í vasa eða peysu eða eitthvað, en ég var harðákveðin.“ Á afmælisdag Hrannar, þegar hún varð tuttugu og fimm, komu mamma hennar og pabbi með myndina, sem nú hangir upp á vegg í gulu verbúðinni við nákvæmlega sömu götu og málverkið sýnir.

Málverkið sem Einar Helgason, pabbi Hrannar málaði og hún vildi eignast í afmælisgjöf.

„Kannski hef ég séð eitthvað inn í framtíðina, hvað veit ég?” segir listakonan Hrönn, þar sem hún situr með kaffibolla við eldhúsborðið í Sólkoti, sem er ein af fjórum litlum litríkum verbúðum við bryggjuna á Hjalteyri. Myndin sýnir fyrstu tvö húsin við götuna, sem liggur í boga við smábátabryggjuna og fjöruna í þessu kyrrláta þorpi við Eyjafjörð. Pabbi Hrannar, Einar Helgason, var einmitt málari og listamaður, eins og hún sjálf.

„Ég elska að vera hérna. Það er sjórinn. Nálægðin við sjóinn.“

Það er útsýnið þvert yfir Eyjafjörðinn sem grípur mann fyrst, þegar inn er komið. Þar er stór gluggi sem snýr í austur, þar sem Laufáshnjúkur, Kræðufell og Ystuvíkurfjall skaga tignarlega upp til himna handan við fjörðinn. Hrönn býr inni á Akureyri með manni sínum, Halldóri Áskelssyni, en þau eru búin að skapa sér sælureit á Hjalteyri, í litlu gulu verbúðinni. „Við komum mjög oft hérna út eftir,“ segir Hrönn. „Ég elska að vera hérna. Það er sjórinn. Nálægðin við sjóinn.“

Verbúðirnar fjórar sem standa við enda bryggjunnar á Hjalteyri. Sólkot er þessi gula.

Útsýnið út um austurgluggann hjá Hrönn og Halldóri er stórkostlegt.

Sjósundið kveikti

Hrönn segir að tengingin við Hjalteyri sé aðallega til komin vegna sjósunds. „Ég hef mikið farið í sjóinn. Það er eitthvað við það. Manni líður vel andlega, þetta hefur jákvæð áhrif á sjálfsmyndina og herðir mann svolítið. Ég var vön að fara nálægt Víkurskarðinu til þess að komast í sjó, en svo heyrði ég af því að í fjörunni hérna á Hjalteyri væri heitur pottur,“ segir Hrönn. „Eftir að ég fór að koma hingað í staðinn til þess að fara í sjóinn var eiginlega ekki aftur snúið. Ég heillaðist af staðnum. Þegar ég frétti að þetta litla hús væri til sölu, gat ég ekki annað en eignast það.“

„Ég hafði reyndar enga þolinmæði til þess að veiða, en ég gat alveg gleymt mér hérna að brasa eitthvað í fjörunni.“

Hrönn hafði komið töluvert til Hjalteyrar sem barn, en pabbi hennar var einstaklega hrifinn af því að fara í dagsferðir með fjölskyldunni til þess að fara í fjöruna og veiða. „Ég hafði reyndar enga þolinmæði til þess að veiða, en ég gat alveg gleymt mér hérna að brasa eitthvað í fjörunni.“ Hrönn segir að myndin sem pabbi hennar málaði, sem hún varð að eignast, sé bara ein af mörgum sem hann málaði frá Hjalteyri.

Fuglana, og þá sérstaklega Hrafninn, má víða rekast á þar sem Hrönn er annars vegar. Þessa vettlinga prjónaði Halla systir hennar fyrir hana.

„Það er friður og ró,“ segir Hrönn, aðspurð um muninn á því að dvelja í Sólkoti eða inni á Akureyri. „Svo eru það fuglarnir mínir. Ég á tvo hrafna sem ég gef. Ég gef líka æðarkollunum og smáfuglunum,“ segir Hrönn. Fuglinn svarti er áberandi í skrautmunum á heimilinu sem og á málverkum listakonunnar. „Ég segi alltaf að þessir tveir séu vinir mínir, Sæmi og Jón, en þeir eru báðir dánir. Mér finnst þeir heimsækja mig aftur í þessum tveimur hröfnum.“

„Mamma er ekki hrifin af því, hún er sko ekki á því að pabbi myndi vera hettumáfur!“

„Ég gef hettumáfunum afganga,“ bætir Hrönn við og segist hafa manngert þá líka. „Ég segi alltaf að það séu pabbi og Anton bróðir minn. Mamma er ekki hrifin af því, hún er sko ekki á því að pabbi myndi vera hettumáfur!“ Foreldrar Hrannar eru Einar Helgason, listamaður og kennari, sem lést árið 2013 og Ásdís Karlsdóttir, fyrrum íþróttakennari. Hrönn er ein af sex systkinum.

Frá Sólkoti er fallegt útsýni yfir hafnarsvæði Hjalteyrar. Gamla síldarverksmiðjan stendur vörð um horfinn tíma.

Skemmtilegt samfélag á Hjalteyri

„Að vera svona nálægt náttúrunni gefur mér mikið,“ segir Hrönn. „Síðan er líka ofboðslega skemmtilegt og fallegt samfélag hérna. Það er gaman hjá okkur.“ Bæði einkennist þorpið af heimafólki sem á uppruna sinn á Hjalteyri og í seinni tíð hefur einnig sótt þangað fjölbreytt flóra listafólks. Hrönn málar bæði heima á Akureyri og hérna á Hjalteyri. „Stundum kem ég hérna ein, bara yfir nótt. Þá er ég í algjöru næði til þess að mála eða bara vera.“

„Ég ólst upp við að við vorum alltaf að teikna og búa eitthvað til,“ segir Hrönn. Þó að pabbi hennar hafi verið listmálari, segir hún að það hafi eiginlega frekar verið mamma hennar sem hvatti börnin til listsköpunar. „Við sátum alltaf öll saman við eldhúsborðið, systkinin, og sköpuðum eitthvað. Ég minnist þess að pabbi var nú eiginlega frekar að hvetja einhverjar vinkonur mínar til þess að læra myndlist, frekar en okkur systkinin. Ég er ekki viss um að honum hafi þótt það eftirsóknarverður starfsframi fyrir okkur, að vera listafólk.“

Á MORGUNListakonan, aktívistinn og amman í Speslandi

Kajakarnir eru í mikilli notkun hjá Hrönn og Halldóri. Einu sinni reri Hrönn alla leið til Akureyrar frá Hjalteyri á kajaknum!