Fara í efni
Mannlíf

Rólyndur refur í vetrardýrðinni

Eyþór Ingi Jónsson, organisti í Akureyrarkirkju, er ekki síður þekktur fyrir frábærar ljósmyndir en fallegan orgelleik. Náttúran í allri sinni dýrð er í uppáhaldi hjá sveitastráknum úr Dölunum þegar hann heldur af stað, vopnaður myndavélum og öðrum nauðsynlegum græjum, og hann náði í vikunni þessari fallegu mynd af rólyndum ref í Eyjafjarðarsveit.

„Ég er mjög þakklátur fólki sem hringir í mig og lætur vita af fuglum, selum, hvölum eða öðru áhugaverðu myndefni. Þannig var það í vikunni; ég fékk ábendingu um gæfan ref í Eyjafjarðarsveit og beið ekki boðanna. Var að mála fataskáp, en skildi málninguna eftir í bakkanum! Gat ekki sleppt því tækifæri að mynda refinn,“ segir Eyþór Ingi í samtali við Akureyri.net. Málningin í bakkanum fer ekkert, harðnar í mesta lagi – en ekki er víst að rebbi staldri lengi við!

Eyþór Ingi segir sjaldgæft að sjá jafn gæfa refi í Eyjafirði og þennan. „Bestu refamyndirnar mínar eru reyndar héðan. Refir eru mjög gæfir á Hornströndum, þar sem þeir eru friðaðir, en það er ekki oft sem maður kemst svona nálægt ref hér; ég lagði bílnum innan við 50 metra frá honum og tók fyrstu myndirnar þaðan, en svo færði hann sig aðeins en var samt innan við 100 metra frá mér. Hann var mjög rólegur, virkaði aðallega forvitinn,“ segir Eyþór Ingi.

Heimasíða Eyþórs Inga