Fara í efni
Mannlíf

Rokkuð jólalög Davíðs og Hljóðfærasveinanna

Davíð Máni Jóhannesson og Hljóðfærasveinarnir sendu á dögunum frá sér plötu með sex ábreiðum af gömlum, þekktum jólalögum í rokkbúningi. Þann 5. desember kom út útgáfa hans af Santa Claus Is Coming To Town, sem þekkt er á íslensku sem Jólasveinninn kemur í kvöld
 
Stuttskífan, platan með lögunum sex, kom svo út á föstudaginn var. „Ég hef lengi viljað vinna svona verkefni enda er ég mikið jólabarn og hef alltaf elskað allt tengt jólunum; maturinn, góðar stundir með fjölskyldunni, vinum og vandamönnum, og gjafirnar eru góður bónus,“ segir Davíð Máni og bætir við: „Í ár er þessi stuttskífa mín jólagjöf til allra.“
 
Davíð Máni sér um allan söng á plötunni nema í laginu Winter Wonderland þar sem hann leikur á gítar „en ég fékk góða gesti til mín, þau Aron Frey Ívarsson og Björgu Elvu.“
 
Önnur lög á plötunni eru O Holy Night, Rockin' Around The Christmas Tree, Frosty The Snowman og Carol Of The Bells.
 
„Ásamt mér koma fram á plötunni líka þeir Ívar Leó Hauksson, úr SÓT og Melodí, sem leikur á bassa og Atli Rúnarsson trommari sem var í hljómsveitinni Helga og Hljóðfæraleikurunum, en nafnið á minni hljómsveit, Davíð Máni og Hljóðfærasveinarnir, er auðvitað ákveðin vísun í hana.“
 
Hallgrímur Jónas Ómarsson sá um upptökur, hljóðblöndun og alla eftirvinnslu og Davíð Máni er hæstánægður með útkomuna. „Þetta hljómar allt rosalega vel, og það verður gaman að heyra hvernig þetta hljómar í eyrum annara yfir hátíðina.“