Fara í efni
Mannlíf

Reynir hefur sungið í kirkjukórnum í 65 ár

Reynir Helgi Schiöth við píanóið heima í Hólshúsum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Reynir Helgi Schiöth, píanóleikari, fyrrverandi brunavörður og bóndi í Hólshúsum varð áttræður á dögunum. Félagar hans í kirkjukór Laugalandsprestakalls heiðruðu hann að því tilefni á söngæfingu með blómum og óvæntum afmælissöng. Og fleiru var að fagna því um næstu jól hefur Reynir sungið 65 ár í kirkjukórnum og aldrei misst úr jólamessu á þeim tíma!

Móðir hans, Sigríður Schiöth, var lengi organisti í Hrafnagils- og Saurbæjarhreppum hinum fornu. Það vildi svo til, að þegar Reynir kom heim í jólafrí 15 ára gamall, stóð yfir söngæfing hjá henni í Hólshúsum. Reynir skellti sér með í hópinn og hefur sungið með æ síðan. Hann var líka í kór og í hljómsveitum á Laugum, þar sem hann var í skóla,; enda alinn upp við tónlist. En í skólanum var hann auk þess mjög virkur í sundi, blaki og fótbolta.

Reynir 17 ára að aldri ásamt foreldrum sínum og systrum. Frá vinstri: Margrét, Sigríður Guðmundsdóttir Schiöth, Helgi Hinrik Schiöth, Valgerður og Reynir.

 

Byrjaði ungur að spila á píanó

Í viðtali við Akureyri.net sýndi Reynir hógværð og lítillæti. Sagðist ætíð hafa sungið bassa en aldrei verið neitt sérstakur söngmaður. Sagðist hafa verið mikið í íþróttum en ekkert sérstaklega góður í þeim heldur. Það er þó engum blöðum um það að fletta að Reynir er góður píanóleikari, en að hans sögn – skítsæmilegur. Það var að sjálfsögðu píanó í Hólshúsum og Reynir fór snemma að glamra á það, eins og hann orðaði það. Á Laugum spilaði hann á píanó á nokkrum skólaböllum, í hljómsveit með þeim Birgi Marinóssyni og Ævari Hólmgeirssyni, sem báðir spiluðu á harmóniku.

Píanóið í Laugaskóla var sífellt fært til og frá milli söngtíma og svo fór, að það var orðið falskt af þessum sífelldu lyftingum og burði, að sögn Reynis. Honum var þó kennt um að hafa skemmt hljóðfærið því hann sló alltaf svo fast á nóturnar. Reynir stendur enn þann dag í dag á því fastar en fótunum að sökin hafi ekki verið hans, enda fer það ekki vel með píanó að vera sífellt að lyfta þeim upp!

Hljómsveitabransinn

Reynir var í fleiri hljómsveitum. Ein hét Ásar og önnur hét Laxar; en hana skipuðu auk hans „Kiddi Palli, Rabbi Sveins, Gunnar Tryggvason og Þorsteinn Kjartansson.“ Reynir er nú meðlimur í hljómsveitinni Þuríður formaður sem ber nafn eiginkonu hans. Sú hljómsveit hefur meðal annars spilað í Menntaskólanum á Akureyri, 1. desember ár hvert síðustu 20 ár, en síðasta ár var ekkert ball vegna Covid. Þeim hjónum finnst afskaplega skemmtilegt að spila á þessum MA böllum. Nemendur eru í sínu fínasta pússi, dansa gömlu dansana og allir svo glaðir og kátir.

Djass og gömul íslensk dægurlög

Reynir er enn að spila fyrir aðra, en hvaða tónlist hlustar hann sjálfur á? Hvað er skemmtilegast að spila og hvað er skemmtilegast að syngja?

„Að hlusta á? Djass. Það er skemmtilegt. Og djasskennd dægurlög. Mörg dægurlög sem ég held upp á eru núna kölluð klassík. Tónlist Oddgeirs Kristjánssonar, sem ég hlusta mikið á, var lengi talin dægurlög en er kölluð klassík núna. T.a.m. Sólbrúnir vangar, Ágústnótt, Ég veit þú kemur, Gamla gatan, Sigling (Blítt og létt) og fleiri

Að spila? Til dæmis mörg lög Jóns Múla. Fer oft í þau ef ég sest og spila. Líka gömul amerísk dægurlög; Louis Armstrong og Ella Fitzgerald. Og svo kallar eins og Ingimar Eydal sem eru góðir á píanó!“

Um sönginn vill Reynir ekki mikið tala. Hann segist vera skástur í að syngja kóra- og kirkjutónlist því það hefur hann alla tíð gert. En þegar gengið er á hann kemur í ljós að hann syngur líka í sturtu. Hann bætir við: „Svo raula ég eitthvað bull sem situr í hausnum á mér þegar ég vakna á morgnana.“

Skrýtið að vera orðinn áttræður

Reynir er hress að vanda og finnst mjög skrýtið að vera orðinn áttræður. Hann segir að aldurinn sé bara tölur á blaði. Síðustu 14 ár starfsævi sinnar var hann brunavörður á Akureyrarflugvelli. Sagðist hafa verið sendur heim þegar hann var 69 ára gamall. Þar áður var hann kúa- og nautgripabóndi og fetaði þar í fótspor föður síns, Helga Schiöth, bónda og lögreglumanns. Hann var alltaf á kafi í spilamennsku og auk alls þessa hringdi hann stórum, þungum bjöllum Grundarkirkju þegar messað var þar á bæ.

Nú syndir hann í lauginni á Hrafnagili fimm daga vikunnar og er bara nokkuð góður í því. Hann á gott píanó heima í Hólshúsum og hljóðfærið virðist þola vel fastan áslátt Reynis. Hann spilar á það daglega og mun gera það áfram svo lengi sem mögulegt er.

Hjónin Þuríður og Reynir Schiöth störfuðu í fjöldamörg ár með Freyvangsleikhúsinu. Myndin er tekin þar. 

Reynir og Þuríður ásamt sonum sínum, Einari Axel og Helga.