Fara í efni
Mannlíf

Rannveig og María brúuðu kynslóðabilið

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Það er mjög gaman að vera hér saman; það er reyndar alltaf gaman hjá okkur!“ sagði María Ingunn Tryggvadóttir þegar blaðamaður hitti hana og ömmustelpuna Rannveigu Maríu Guðnadóttur þar sem þær voru saman á vakt í verslun Nettó í Hrísalundi.

María Ingunn hefur unnið þar lengi en Rannveig María síðustu sjö mánuði með skóla. „Ég hef unnið í 37 ár hjá kaupfélaginu, ef svo má segja. Byrjaði reyndar sem krakki í verksmiðjunni Sjöfn, seinna skúraði ég í þessari búð þegar hún var KEA og síðan Úrval. Nú hef ég verið hér samfleytt síðan 2005,“ segir hún.

Rannveig María er 16 ára á fyrsta ára í Menntaskólanum á Akureyri. Var að ljúka fyrstu önninni. Þótt vinnustaðurinn sé sá sami vinna þær Mæja, eins og amman segist alltaf kölluð í versluninni, og Rannveig María aldrei saman nema núna í kringum jólin. „Hún vinnur alltaf þegar ég er ekki að vinna. Ég er hætt að vinna á kvöldin og um helgar,“ segir amman. Hún hyggst setjast í helgan stein 1. júlí á næsta ári. „Ætli ég verði þá ekki að taka við!“ segir ömmustelpan.