Fara í efni
Mannlíf

Rall og rjómablíða hjá Bílaklúbbnum

Rallað í rjómablíðu í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Árlegir Bíladagar hófust á Akureyri í gær og standa þar til að kvöldi laugardags, þjóðhátíðardagsins 17. júní. Í dag er keppt í rallycrossi; sú keppni hófst kl. 13.00, og í kvöld fer fram hávaðakeppni, græjukeppni og bílalimbó, eins og sá dagskrárliður er kallaður.

Veðrið leikur við bílaáhugamenn sem aðra bæjarbúa og gesti í dag eins og síðustu daga og mun gera eitthvað áfram.

Á morgun verður götuspyrna kl. 15.00 og á laugardag, 17. júní, verður tvennt í boði. Annars vegar árleg bílasýning Bílaklúbbs Akureyrar frá kl. 10.00 til 18.00, hins vegar spólkeppni – svokallað burnout – frá kl. 20.00 til 23.00. Allir viðburðir eru haldnir á svæði bílaklúbbsins við Hlíðarfjallsveg nema hvað bílasýningin er í íþróttahúsinu Boganum á félagssvæði Þórs í Glerárhverfi.

Hér má sjá nokkrar myndir frá rallycrosskeppninni í dag.