Fara í efni
Mannlíf

Ragga Rix mætti til leiks og sigraði

Akureyringurinn Ragnheiður Inga Matthíasdóttir sigraði í kvöld í Rímnaflæði 2021, rappkeppni unga fólksins. Ragga Rix, eins og hún kallar sig, er 13 ára og keppti fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Tróju í Rósenborg. Hún flutti eigið lag, Mætt til leiks – myndband af því er neðst í fréttinni.

Rímnaflæði er haldið af Samfés, Landssamtökum félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi. Keppnin var fyrsta haldin í Miðberg árið 1999 og „er svo sannarlega stökkpallur fyrir unga og efnilega rappara úr félagsmiðstöðvum víðsvegar að af landinu,“ segir í tilkynningu frá Samfés í kvöld.

Ekki kom til greina hjá Samfés að fresta eða aflýsa viðburðinum, þrátt fyrir hertar sóttvarnaraðgerðir, og í ár var Rímnaflæði því haldið á netinu, í samstarfi við UngRúv og Dominos. „Við viljum þakka öllum sem horfðu á frábær atriði keppenda og tóku þátt í netkosningunni. Hægt er að sjá viðtal við sigurvegara frá síðasta ári og öll atriði keppenda á vef UngRúv. Allir keppendur fá tækifæri til að koma fram á Landsmóti Samfés sem haldið verður á Hvolsvelli. Sigurvegari Rímnaflæðis og efnilegasti rapparinn koma fram á SamFestingnum í Laugardalshöll fös. 25. mars 2022,“ segir í tilkynningunni.

Í öðru sæti varð Þorsteinn Michael Guðbjargarson frá félagsmiðstöðinni Þrumunni í Grindavík með lagið sitt Lil Stony. Það var svo George Ari Devos, Kzoba úr félagsmiðstöðinni Gleðibankanum í Reykjavík sem hlaut titilinn efnilegasti rapparinn 2021.

„Sorrí gaur nenni ekki að sjá á þér typpið“