Fara í efni
Mannlíf

Rafmögnuð stemning í bílnum hjá Þorgeiri

Þorgeir Jónsson leigubílstjóri við rafbílinn sem er af gerðinni KIA EV6.

Þorgeir Jónsson leigubílstjóri keypti sér fyrir nokkru nýjan bíl, sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi því leigubílstjórar endurnýja bílana sína reglulega eins og eða jafnvel oftar en aðrir bílstjórar því þeir keyra meira. En Þorgeir ákvað að kaupa sér rafbíl, KIA EV6, og er sá eini í flotanum hjá BSO sem treystir einvörðungu á rafmagnið.

Bíll Þorgeirs er svona eiginlega næstum því fyrsti 100% rafbíllinn sem í boði er í leigubílaakstri á Akureyri ef frá er talið stutt tímabil fyrir um tíu árum þegar annar bílstjóri gerði tilraun með rafbíl. Útsendari frá Akureyri.net tók sér far með Þorgeiri og spjallaði við hann um rafbílinn, ástæðurnar, reksturinn og rafmagnið. Þorgeir er ánægður með rafbílinn og segir farþegana vera það líka. Það er þægilegt að keyra hann, þyngdarpunkturinn er neðarlega vegna rafhlöðunnar, bíllinn liggur vel að sögn Þorgeirs og það litla sem hefur reynt á hann í snjó lofar góðu. Fallegur bíll að innan sem utan, gott að sitja í honum og enn betra að vita af útblástursleysinu.

Þægilegur bíll að keyra og að sitja í. Þorgeir undir stýri á rafbílnum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Úr 170 þúsund í olíu niður í 15 þúsund fyrir rafmagnið

Þorgeir hefur verið í leigubílabransanum í fjögur ár og þegar hann ákvað fyrir ekki svo löngu að kaupa sér rafbíl, KIA EV6, fyrir leiguaksturinn var ástæðan fyrst og fremst kostnaðartengd. „Aðallega var mér farið að blöskra rosalega kostnaðurinn við olíuna. Ég var að kaupa olíu fyrir 150-170 þúsund á mánuði á þá bíla sem ég var með, samt sparsama bíla,“ segir Þorgeir þegar hann rennir norður Hörgárbrautina út úr bænum.

En það er fleira sem skiptir máli en kostnaðurinn, til dæmis útblástursmengunin, og fólk er ánægt að geta fengið rafleigubíl á Akureyri. „Það eru margir hverjir mjög hrifnir af því að það skuli vera leigubíll á rafmagni hérna,“ segir Þorgeir. Hann segir viðbrögð farþega hafa verið ágæt. Já, svolítið og líka af því að þetta er nýr bíll. Jú, menn sjá mælaborðið og spyrja hvort þetta sé rafbíll og mér finnst ég bara fá mjög jákvæð viðbrögð. Sumir hugsa þetta út frá mengun og það skiptir líka máli.

Mælaborðið ber þess merki að um rafbíl er að ræða. Lengst til hægri sést hve mikið er eftir af hleðslu á rafhlöðunni og hve langt bíllinn kæmist á þeirri hleðslu. Neðst í hægra horni sést líka að það eru 80 metrar í næstu hleðslustöð. Hringurinn fyrir miðri mynd birtist þegar Þorgeir gaf stefnuljós til hægri. Myndavél sýnir honum þá blinda punktinn við hlið bílsins. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Meira af tækninni í mælaborðinu. Myndavélar gegna mikilvægu hlutverki í nútímabílum. Hér má sjá skjáinn þegar bíllinn er settur í bakkgír. Loftmyndin af bílnum olli heilabrotum og veltu bílstjóri og farþegi fyrir sér hvort tæknin væri komin svo langt að hann fengi gervihnattamynd beint á skjáinn hjá sér, en líklegra er að með smá gervigreindarblekkingum eða tilfæringum sé loftmyndin búin til með aðstoð nokkurra myndavéla við topp bílsins. Mynd: Haraldur Ingólfsson. 

Hann segist ekki alveg vera kominn með staðfesta mánaðareyðslu af rafmangi við að hlaða nýja bílinn. „Ég hef grun um að rafmagnskostnaður fari niður fyrir 20 þúsund, jafnvel í 15 þúsund á mánuði.“ Þorgeir segir nauðsynlegt miðað við notkunina að vera með heimahleðslustöð. Kostnaðurinn við heimahleðslu er líklega innan við fjórðungur af því sem það myndi kosta hann að fara á hraðhleðslusöð.

Hitastigið hefur áhrif á drægnina

Á venjulegum degi keyrir Þorgeir innan við 100 kílómetra, sem er auðvitað líka merki um þægilega stærð Akureyrar þar sem það tekur innan við tíu mínútur að fara endanna á milli. Á annasömum dögum nær hann um 200 kílómetrum. Vetraraksturinn er nánast alveg innanbæjar og kveðst Þorgeir ekki vera í neinum vandræðum með hleðsluna. „Hleðslan endist mér alveg í tvo til þrjá daga hérna innanbæjar, en ég sé muninn eftir hitastigi,“ segir hann. Stutt er síðan frostið fór í 10-20 stig og svo koma hlýindadagar inn á milli með tíu stiga hita. Á slíkum dögum getur munað yfir 100 kílómetrum á drægni bílsins á einni hleðslu.

Frostið að undanförnu olli þó engum vandræðum með rafbílinn að sögn Þorgeirs. Tæknin býður líka upp á að setja hita á bílinn og þarf ekki nema tíu mínútur áður en Þorgeir fer út til að losa klaka af honum og bíllinn orðinn heitur á fimm mínútum. Sama er uppi á teningnum ef hann stendur kaldur fyrir utan stöðina þegar hann fær túr, bíllinn orðinn heitur á örskotsstundu.

Klárar kannski ekki stærstu dagana

Ég sé alveg að ég gæti lent í vandræðum stærstu dagana á sumrin þegar maður keyrir kannski á fullu frá morgni. Þá er maður kominn í erfiðleika með að taka til dæmis túr til Dalvíkur eða ég tala nú ekki um til Reykjavíkur, en ég er með annan bíl sem ég get gripið í hálftíma eftir matinn og hlaðið þennan á meðan.

Þorgeir brosir þegar útsendari Akureyri.net stingur upp á þeirri reglu að þegar bílstjóri hefur keyrt það mikið að hleðslan er að klárast þá sé um leið kominn tími fyrir bílstjórann að hvíla sig. Langir vinnudagar eru enda þekktir í þessum bransa.