Fara í efni
Mannlíf

Potterdagurinn mikli í Amtsbókasafninu

„Potterdagurinn mikli“ verður haldinn hátíðlegur á Amtsbókasafninu á Akureyri í dag og raunar alla helgina hér og þar um bæinn.

„Góðvinur barna, bókasafna (já og margra fullorðinna) sjálfur Harry Potter, á afmæli á laugardag 31. júlí. Líkt og hefð er orðin mun Amtsbókasafnið á Akureyri fagna deginum með pompi og prakt, föstudaginn 30. júlí. Potterdagurinn mikli var fyrst haldinn hátíðlegur á Amtsbókasafninu 2017 og hátt í 1000 manns hafa sótt viðburðinn ár hvert,“ segir í tilkynningu frá safninu.

Hátíðarhöldin verða með öðru sniði í ár en áður og áhersla lögð á að börn og fjölskyldur geti tekið þátt í hátíðarhöldunum í sínum „búbblum“ og án hópamyndana. Viðburðurinn mun því ekki aðeins fara fram á Amtsbókasafninu heldur einnig heima í stofu og á götum úti, en fyrirtæki og stofnanir í miðbæ Akureyrar hafa lagt bókasafninu lið með því að lána glugga sína fyrir ratleik sem fer fram alla helgina.

Á bókasafninu í dag, föstudag, frá klukkan 14.00 til 17.00:

  • Harry Potter pakkar – Börn fá afhenta Harry Potter pakka til þess að taka með sér heim. Í hverjum pakka leynist sitthvað skemmtilegt, svo sem fjölbragðabaunir, föndur og þrautir.
  • Göldrum líkast - Í sýningarrými safnsins verður hægt að skoða ýmsa töfrandi muni tengda veröld Harry Potter.
  • Taktu mynd af þér í galdraheiminum! – myndabakgrunnar og munir

Alla helgina:

  • Ratleikur um miðbæinn – Í tilkynningunni segir: Frá föstudegi til sunnudags verður hægt að koma auga á ýmsar persónur galdraheimsins í gluggum í miðbæ Akureyrar, getið þið fundið þær allar? Ratleikjablöð verður hægt að nálgast á Amtsbókasafninu á föstudag og rafrænt á heimasíðu safnsins alla helgina.
  • Hversu vel þekkir þú Harry Potter? – Kahoot spurningakeppni sem verður aðgengileg alla helgina. Tilvalið fyrir fjölskyldur að keppa sín á milli eða sem lið. Tengill verður settur í loftið í dag.