Fara í efni
Mannlíf

Perlað verður fyrir Kraft á Háskólatorgi

Það er mikið um að vera hjá Krafti, sem er félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Fjáröflunarátak félagsins í ár ber heitið „Vertu perla - Berðu Lífið“ og verður armband ársins til sölu í vefverslun Krafts, www.lifidernuna.is . Með því að kaupa armbandið og bera það, segir á Facebook síðu Krafts, er ungu fólki sem tekst á við krabbamein sýndur stuðningur í verki.

Það er ekki hægt að selja vöru án þess að hún sé til, og til þess að framleiða nóg af armböndum til sölunnar ferðast Kraftur um landið og býður til viðburða á ýmsum stöðum. Þar getur fólk komið saman og átt góða stund við að perla armbönd. Á Akureyri verður hist á Háskólatorgi HA á fimmtudaginn, 1. febrúar á milli kl. 17:00 og 20:00 til þess að perla. Kaffi og kruðerí verður í boði og viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.

Armböndin verða til sölu næstu þrjár vikurnar og kosta 2.900 krónur. Allur ágóði rennur til Krafts. Auk þess að vera seld í vefverslun verður hægt að kaupa armbönd hérna á Akureyri í Hagkaup, Kúnígúnd og hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.

Tengill á viðburðinn á Facebook síðu Krafts: https://fb.me/e/6UFtd8MTb