„Öryggismál eru í raun eilífðarverkefni“

Nýlega tók Gauti Þór Grétarsson við starfi öryggisstjóra Samherja, af Jóhanni G. Sævarssyni, sem gegndi starfinu sl. 9 ár. Gauti segir í viðtali á vefsíðu Samherja að greinilegt sé að fyrirtækið standi framarlega á sviði öryggis- og vinnuverndarmála enda leggi það metnað sinn í að tryggja öryggi starfsmanna, efla heilbrigði þeirra og fyrirbyggja fjarveru úr vinnu vegna slysa eða annarra heilsufarsvandamála.
Gauti Þór kemur til Samherja frá Norðurorku, þar sem hann starfaði sem verkefnastjóri öryggismála og framkvæmda, og þar áður var hann lengi slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður. Hann segir í viðtalinu að fyrsta verkið sé að kynnast starfseminni og fólkinu, enda sé Samherji með margþætta starfsemi.
Slysum hjá Samherja hefur fækkað
Á hverri starfsstöð Samherja er starfandi sérstök öryggisnefnd, sem öryggisstjóri starfar náið með. „Þessum nefndum er meðal annars ætlað að skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsfólks og ýmislegt fleira. Þessar nefndir eru afskaplega mikilvægar og mér sýnist þær vera ágætlega virkar hérna hjá Samherja,“ segir Gauti Þór í viðtalinu. Hann leggur áherslu á að öryggismálin séu samstarfsverkefni, hlutverk öryggisstjóra sé að vinna með sem flestum, aðstoða, fræða og efla.
Gauti segir að tölur um fækkun slysa hjá Samherja á undanförnum árum sýni að öryggismálin hafi verið tekin föstum tökum, bæði af hálfu fyrirtækisins og starfsfólks. En þótt slysum hafi fækkað lýkur vöktun öryggismála aldrei og lykilatriði að eigendur, stjórnendur og starfsfólk séu að róa í sömu átt. Hjá Samherja sé vel fylgst með nýjungum í öryggis- og vinnuverndarmálum og nýjar lausnir innleiddar ef þær henta. „Öryggismál eru í raun eilífðarverkefni og við megum aldrei sofna á verðinum. Ég hlakka til að vinna með öflugu fólki, það er greinilegt að öryggismenningin hérna er á háu stigi,“ segir Gauti Þór Grétarsson að lokum í frétt Samherja.