Fara í efni
Mannlíf

Öruggur sigur KA gegn HK og sæti í 8 liða úrslitum tryggt

KA-menn unnu góðan sigur gegn HK í dag og eru komnir í 8 liða úrslit Mjólkurbikarsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA unnu 3:1 útisigur á HK í Kórnum í dag en leiknum lauk nú rétt í þessu. Leikurinn var hluti af 16 liða úrslitum Mjólkurbikars karla og KA-liðið því komið áfram í 8 liða úrslit.

Leikurinn var aðeins sex mínútna gamall þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Hallgrímur Mar vann aukaspyrnu á hættulegum stað eftir að Ahmad Faqa braut á honum. Hallgrímur tók spyrnuna sjálfur og átti skot sem fór af Ívari Erni Árnasyni og í netið.

KA-menn bættu við öðru marki tíu mínútum síðar. Markið kom úr vítaspyrnu eftir að Dusan Brkovic féll eftir viðskipti við Arnþór Atlason. Hallgrímur Mar tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi. Staðan 2:0 eftir 16 mínútur og KA-menn í góðri stöðu.

Hallgrímur Mar fékk svo kjörið tækifæri til að skora annað mark sitt í leiknum þegar KA fékk víti á 49. mínútu. Aftur var það Dusan Brkovic sem fiskaði það. Vítið hjá Hallgrími var þó slappt í þetta skipti og Arnar Freyr í marki HK varði af öryggi.

Bjarni Aðalsteinsson skoraði svo þriðja mark KA á 85. mínútu leiksins með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu og gerði endanlega út um leikinn. Örvar Eggertsson skoraði sárabótarmark fyrir HK þegar komið var fram í uppbótartíma.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og 3:1 sigur KA staðreynd.

KA-menn verða því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslit bikarsins. En mögulegir mótherjar eru: Þór, FH, Stjarnan, Grindavík, Breiðablik, Víkingur eða KR eða Fylkir en 16 liða úrslitin klárast í kvöld með leik þessara liða í Árbænum.

Bikarmörkin, markaþáttur Mjólkurbikarsins verður á dagskrá RÚV2 klukkan 21:45 í kvöld þar sem áhugasamir geta séð mörkin úr leiknum ásamt öllum mörkunum úr hinum leikjum 16 liða úrslitanna.