Fara í efni
Mannlíf

Opinber heimsókn forsetans – MYNDIR

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, með glæsilega ljósmynd sem forsetinn færði sveitarfélaginu að gjöf; myndin er frá heimsókn Sveins Björnssonar, fyrsta forseta lýðveldisins, til Akureyrar árið 1944. Forsetinn afhenti gjöfina við setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum á föstudagskvöldið. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid eiginkona hans, voru í opinberri heimsókn á Akureyri á föstudag og laugardag.

Hjónin fóru víða og tóku þátt í ýmsum viðbörðum á Akureyrarvöku, árlegri bæjarhátíð, sem jafnan er haldin sem næst afmælisdegi sveitarfélagsins. Haldið er upp á það um helgina að næstkomandi þriðjudag, 29. ágúst, er 161 ár síðan Akureyri fékk kaupstaðarréttindi.

Akureyri.net fylgdist grannt með þessari fyrstu opinberu heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar. Hér eru myndsýnirhorn frá öllum viðkomustöðum hjónanna í heimsókninni en mun fleiri myndir eru í tengdu albúmi. 
_ _ _

VELKOMIN!
Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri tóku á móti forsetahjónunum á Akureyrarflugvelli snemma á föstudagsmorgun.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _

FUNDUR Í RÁÐHÚSINU
Forsetahjónin hófu opinbera heimsókn sína á fundi með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra, bæjarstjórn og sviðsstjórum bæjarins í Ráðhúsinu þar sem myndin var tekin. Í framhaldinu var gengið um húsið og heilsað upp á annað starfsfólk. 

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _

FÁNI DREGINN AÐ HÚNI
Eftir heimsókn í Ráðhúsið gengu hjónin, bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar, formaður bæjarráðs og fleiri í gegnum miðbæinn og upp Listagilið þar sem börn úr elstu deildum leikskólanna Hólmasólar og Iðavallar biðu í veðurblíðunni. 
Börnin sungu nokkur lög við undirleik Ívars Helgasonar og Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, dró fána Akureyrarvöku að húni.

Forsetinn brá á leik með börnunum þegar þau sungu „Ef sólin væri á bragðið eins og sleikjó ...“ Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
_ _ _
 

NAUSTASKÓLI
Þvínæst heimsóttu hjónin einn grunnskóla bæjarins, Naustaskóla, hlustuðu þar á kynningar nemenda um stefnu skólans og ræddu svo við stjórnendur, kennara og nemendur í kennslustofum.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _

VERKMENNTASKÓLINN
Heimsókn í Verkmenntaskólann var næst á dagskrá. Fyrst var komið við í rými vélstjórnarnema, því næst litið inn á listnáms- og hönnunarbraut, þá komið við í FabLab Akureyri, sem er til húsa í skólanum, og loks kynnti Guðni sér starfið í byggingadeild og Eliza átti samræður við erlenda nemendur í skólanum sem m.a. eru að takast á við þá áskorun að læra íslensku. 

Forsetahjónin og Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri FabLab Akureyri sem er til húsa í VMA, veifa í vefmyndavél sem er beint til annarra FabLab starfstöðva á Íslandi og víðar. Til hægri er Árni Björnsson tæknifulltúi og starfsmaður FabLab. 


Ljósmyndir: Hilmar Friðjónsson
_ _ _

HEIMSÓTTU ELDRI BORGARA Á HLÍÐ
Í hádeginu á föstudag heimsóttu forsetahjónin hjúkrunar- og dvalarheimilið Hlíð, ræddu þar við starfsfólk og íbúa, og snæddu hádegisverð í matsalnum.

Mynd af forseti.is


Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _

IÐNAÐARSAFNIÐ
Eftir hádegisverð á Hlíð héldu forsetahjónin á Iðnaðarsafnið þar sem margt úr fjölbreytti og stórmerkilegri iðnaðarsögu Akureyrar er til sýnis. 

Þorsteinn Arnórsson og Sigfús Ólafur Helgason, til hægri, sýna forsetahjónunum nýtt líkan af Húna II á Iðnaðarsafninu. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _
 

SKÓGARLUNDUR
Næst var haldið að Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar, þar sem Ragnheiður Júlíusdóttir, forstöðumaður miðstöðvarinnar, kynnti forsetahjónunum starfsemina sem felst m.a. í stuðningi við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. 

Ragnheiður Júlíusdóttir forstöðumaður í Skógarlundi færir forsetanum gjöf. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _

LEIKSKÓLINN KLAPPIR
Forsetahjónin heimsóttu nýjasta leikskóla bæjarins, Klappir í Glerárhverfi. Skólinn var tekinn í notkun haustið 2021 en vegna Covid heimsfaraldursins dróst að vígja skólann. Guðni Th. Jóhannesson og Halla Björk Reynisdóttir gerðu það við þetta tækifæri með því að klippa á borða.  

Arna Líf Reynisdóttir, nemandi á leikskólanum Klöppum, færði forsetahjónunum mynd að gjöf eftir að Guðni tók þátt í að vígja skólann formlega. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Forseti lýðveldisins stóðst ekki mátið að fara eina ferð niður þessa flottu rennibraut á Klöppum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _
 

ATVINNULÍFIÐ
Frá leikskólanum Klöppum héldu forsetahjónin í Slippinn þar sem þau skoðuðu fyrirtækið og hlýddu því næst á kynningu á starfsemi sjö fyrirtækja í bænum í húsakynnum Slippsins.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Forsetahjónin, bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar ásamt fulltrúum fyrirtækjanna sem kynntu starfsemi sína. Mynd af forseti.is
_ _ _

KVÖLDVERÐUR Í LAXDALSHÚSI
Forsetahjónin snæddu kvöldverð í boði Akureyrarbæjar ásamt nokkrum bæjarfulltrúum, bæjarstjóra og mökum þeirra, í Laxdalshúsi – elsta húsi bæjarins.

Mynd af forseti.is
_ _ _

AKUREYRARVAKA SETT
Forseti Íslands setti Akureyrarvöku í Lystigarðinum á föstudagskvöldið á viðburði sem kallast Rökkurró. Frá vinstri: Ásrún Ýr Gestsdóttir bæjarfulltrúi, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Eliza Reid forsetafrú og Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar.
 

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
_ _ _ 

TÓNLEIKAR Í HOFI
Forsetahjónin luku vinnudeginum með því að líta við á tónleikum söngkonunnar GDRN og píanóleikarans Magnúsar Jóhanns í Hofi.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _

MORGUNSKOKK
Guðni forseti tók laugardaginn snemma og skokkaði um bæinn með hópi fólks, aðallega félögum í hlaupahópnum Eyrarskokki. 

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
_ _ _

SÖGULJÓSASTAURAR
Forsetahjónin tóku þátt í sögugöngu um Innbæinn á vegum Minjasafnsins á Akureyri. Þar vígðu þau hvort sinn „söguljósastaur“ þar sem fræðast má um sögu hússins sem staurinn stendur við. Staurinn sem Eliza vígði er við Aðalstræti 6, sögufrægt hús þar sem Vilhelmina Lever tók þátt í opinberum kosningum, fyrst íslenskra kvenna – bæjarstjórnarkosningunum 1863.


Hörður Geirsson, sérfræðingur á Minjasafninu, segir frá í bakgarði Laxdalshúss. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
_ _ _
 

SJÚKRAHÚSIÐ
Í heimsókn á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) ræddu forsetahjónin við stjórnendur, starfsmenn og sjúklinga og heimsóttu rannssóknadeild, blóðskilun, skurðlækningadeild og eldhús. Á myndinni eru þau ásamt Hildigunni Svavarsdóttur, forstjóra SAk.

Mynd af forseti.is
_ _ _
 

SKAUTAHÖLLIN
Frá Sjúkrahúsinu héldu forsetahjónin í Skautahöllina þar kvennalandsliðið var við æfingar um helgina.

Mynd af forseti.is
_ _ _
 

GARÐURINN HANS GÚSTA
Þórsarar héldu á laugardag 3 á 3 götukörfuboltamót í Garðinum hans Gústa, velli sem komið var upp við Glerárskóla í minningu Ágústs heitins Guðmundssonar. Forsetahjónin litu í heimsókn, ræddu við mann og annan og reyndu að sjálfsögðu fyrir sér í íþróttinni fögru.
 

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
_ _ _

AMTSBÓKASAFNIÐ
Að því loknu héldu hjónin á Amtsbókasafnið og ræddu þar við „mannlegar bækur“ – þeir sem vildu fengu tækifæri til að spjalla við „bækurnar“ sem að sögn standa frammi fyrir ólíkum og mögulega mjög framandi áskorunum. Þarna ræddu hjónin líka við Sesselíu Ólafsdóttur bæjarlistamann og Hólmkel Hreinsson, amtsbókavörð. 

Mynd af forseti.is
_ _ _
 

FALLEGIR TÓNAR Í HOFI
Frá Amtsbókasafninu héldu forsetahjónin í annað menningarmusteri, Hof. Þar hlýddu þau á jazz dúóið Dimitrios Theodoropoulos og Emblu Dýrfjörð, sem léku á gítar og kontrabassa (efri myndin), og stöldruðu við á
sýningu Sirkussveitar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, þar sem boðið var upp á tónlist sem innblásin er af undraverðum tónum sirkusins.

Myndir af forseti.is
_ _ _ 

LISTASAFNIÐ
Listagilið var síðasti viðkomustaður forsetahjónanna í heimsókninni. Þau skoðuðu þrjú gallerí við götuna og Guðni Th. flutti síðan opnunarávarp í Listasafninu þar sem opnaðar voru fimm sýningar.


Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson