Fara í efni
Mannlíf

Ógleymanleg ferð nema GRÓ skólans

Ánægður hópur eftir vel heppnaða hvalaskoðun og sjóstangveiði. Mynd: Magnús Víðisson

Starfsmenn Auðlindadeildar Háskólans á Akureyri fóru í skemmtilega vettvangsferð með hóp úr Sjávarútvegsskóla GRÓ, sem staddur er á Akureyri um þessar mundir. Farið var í hvalaskoðun, Ektafiskur var skoðaður og endað var á ljúffengri máltíð úr íslenskum fiski. Ferðin fékk afar góða dóma hjá hópnum. Það sama má segja um íslenska sjómenn, gestgjafann Háskólann á Akureyri, náttúruna og friðsældina í Eyjafirðinum.

Koma til að læra fiskveiðistjórnun

Frá upphafi Sjávarútvegsskóla sameinuðu þjóðanna, nú Sjávarútvegsskóla GRÓ, hefur Háskólinn á Akureyri verið virkur þátttakandi. Á hverju ári koma hingað til Akureyrar nemar víða að, til að mynda frá Afríku, Eyjaálfu og Asíu, og læra fiskveiðistjórnun, s.s. hvernig hægt er að stefna að arðbærum sjávarútvegi og hvernig samfélagið getur haft sem mestan hag af. Í sínum heimalöndum starfa þau flest við stofnanir sem koma að fiskveiðistjórnun. Þau segjast geta lært mikið af Íslendingum.

Elvar Reykjalín framkvæmdastjóri Ektafisks sýnir hópnum saltfiskafurðir. Mynd: Magnús Víðisson

Að þessu sinni komu til landsins 24 nemendur. Þar af komu tíu til Akureyrar eftir nokkurra vikna dvöl í Reykjavík. Þau sem komu norður eru frá Kenía, Líberíu, Fiji, Malaví, Tanzaníu, Sierra Léone, Sri Lanka, Solómoneyjum og Papua Nýju Gíneu.

Hópurinn mjög spenntur fyrir að sjá hvali

Þeir Magnús Víðisson og Freysteinn Nonni Mánason, aðjúnktar í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri, brugðu sér í vettvangsferð með hópinn á dögunum. Byrjað var á að fara í hvalaskoðun og var siglt út frá Hauganesi. Í samtali við Akureyri.net sögðu þeir að mjög vel hefði tekist til: „Veðrið var alveg frábært, bjart og gott í sjóinn og hópurinn mjög spenntur fyrir að sjá hvali“, sagði Freysteinn Nonni. Þau sáu tvo hnúfubaka með reglulegu millibili og nokkrum sinnum komu hvalirnir alveg upp að bátnum „greinilega í mannaskoðun“ eins og Magnús orðaði það.

Svo auðvelt að veiða fiskinn

Eftir hvalaskoðunina var farið í stutta veiðiferð þar sem nokkrir fiskar veiddust á stöng. Hópurinn var sérlega ánægður með hversu vel gekk að veiða fisk á svo stuttum tíma. Einn nemandinn hafði orð á því að Íslendingar væru með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi þar sem svo auðvelt væri að veiða fiskinn.

Veðrið lék við hópinn meðan dáðst var að hnúfubökunum. Mynd: Magnús Víðisson

Ljúffeng máltíð kórónaði ferðina

Eftir veiðiferðina var farið í Ektafisk þar sem þau fengu höfðinglegar móttökur hjá Elvari Reykjalín framkvæmdarstjóra sem sýndi þeim fyrirtækið og þær hágæða vörur sem þar eru framleiddar. Til að kóróna heimsóknina var eldaður handa þeim ljúffengur íslenskur „Ektafiskur“ á Baccalá Bar.

Eric Theophilus Sieh Patten er einn nemenda í GRÓ-hópnum. Hann kemur hingað frá Líberíu í Vestur-Afríku. Akureyri.net setti sig í samband við hann til að forvitnast um upplifun hans af hvalaskoðun og verunni hér fyrir norðan.

„Þetta var ógleymanlegt“

Um það segir Eric: „Þessi vettvangsferð var ein af mínum bestu hér á Íslandi. Í hvalaskoðuninni fengum við góða sýn á hnúfubakinn, gátum áttað okkur á hvernig hann hegðar sér og hvers vegna og hvernig matarvenjur hans eru. Persónulega fannst mér mjög spennandi að komast í náið samband við hvalina til að fylgjast með hegðun þeirra. Þetta var ógleymanlegt, eitthvað sem maður upplifir bara einu sinni á ævinni.“

Eric heldur áfram: „Ég var líka undrandi á því hvað sjómenn eru meðvitaðir um verndunaraðgerðir, sérstaklega hvað varðar stærð fiska. Almennt erum við félagar mínir hér hrifnir af sérstöðu hefðbundinna vinnsluaðferða á þorski og því hvað Akureyringar hafa góðan húmor.“

Íhuga að snúa aftur 

Eric nefnir einnig hvað Akureyri sé falleg og róleg „borg“ og hópurinn sé virkilega að njóta veru sinnar hér. Sum úr hópnum eru þegar farin að íhuga að snúa aftur einhvern tíma í framtíðinni til að stunda nám við HA. „Háskólinn á Akureyri er frábær gestgjafi sem lætur allt líta út fyrir að vera svo auðvelt. Okkur hefur verið hjálpað við að koma okkur vel fyrir hér og við hlökkum til fleiri spennandi verkefna á næstu mánuðum.“ Að lokum segir Eric veðrið hér vera stöðugra og fyrirsjáanlegra en fyrir sunnan og elskar nú þegar að vera á Akureyri. Eða með hans orðum: I already love it here!