Fara í efni
Mannlíf

„... og var þá mjög sárt að láta aftur augun“

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

12. desember – Varúð – ekki reyna þetta, hvorki heima né annars staðar!

Nú er illt í efni hér því umfjöllunarefnið á enga ljósmynd svo vitað sé. Enda er það sem á eftir fer væntanlega hugarburður einn saman.

Í gær var fjallað um vinnusemina sem ávallt hefur einkennt vikurnar fyrir jólin. Það þurfti að halda vel á spöðunum, eða prjónunum öllu heldur, til að ná að borga reikninginn hjá kaupmanninum fyrir áramótin. Dagarnir voru því oft langir og vinnandi hendur oft ekki mjög gamlar. Augnlokin þyngdust með kvöldinu. Hvað var þá til ráða? Jólakötturinn var auðvitað hentugur til að hræða börn til vinnu. Góður sögumaður gat haldið athygli fólks við vinnuna. En svo eru til sagnir um svokallaða vökustaura eða augnteprur. Það voru að sögn Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili smáspýtur ámóta stórar og eldspýtur, eða fiskbein, sem sett voru á augnlokin svo þau lokuðust ekki þannig að viðkomandi sofnaði ekki við vinnuna. „Var skorið inn í beinið eða spýtuna til hálfs, en haft heilt hinumegin og gerð á lítil brotalöm og skinninu á augnalokinu smeygt inn í lömina. Stóðu þá endarnir í skinnið og var þá mjög sárt að láta aftur augun.“

Ólíklegt er að fyrrnefnd lýsing hafi nokkurn tímann verið annað en þjóðsaga en líklegra að hér sé á ferðinni misskilningur á orðinu vökubiti sem var einhverskonar matarglaðningur. Meira um það á morgun.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.