Fara í efni
Mannlíf

Nýir rampar bætast við Háskólaparkið

Aðstaðan á Háskólaparkinu var öll yfirfarin í sumar en aðstaðan hefur ekki fengið andlitslyftingu í 17 ár, síðan hún var opnuð. Ljósmynd: Eiki Helgason

Í sumar hefur Braggaparkið staðið fyrir andlitslyftingu á Háskólaparkinu í samstarfi við Akureyrarbæ. Aðstaðan, sem er 17 ára, var orðin mjög slitin og hættuleg en nú er allt annað að sjá svæðið.

„Við byrjuðum á því að laga það sem fyrir var, en skrúfur voru orðnar lausar, pallar höfðu sigið og fleira. Þegar búið var að laga þá palla sem fyrir voru var farið í það að búa til tvo nýja palla,“ segir brettakappinn Eiríkur Helgason, Eiki, ánægður með það að Akureyrarbær hafi viljað bæta aðstöðuna og leitað til notenda svæðisins vegna lagfæringanna.

Krefjandi verk í vinnslu á Háskólaparkinum. Steypuvinna er hafin við tvo nýja palla. Ljósmynd: Eiki Helgason

Nýtt rail og nýmálaðir rampar

Nýju pallarnir, sem enn eru í vinnslu, eru annars vegar bein brekka og einn fjórði pípa sem er nokkuð löng. „Múrey þorði að stökkva á þetta verkefni, sem er ekki hefðbundið múrverkefni. Við vonum að steypuvinnan klárist fyrir veturinn.“

Eiki segir að eftir að pallarnir urðu nothæfir á nýjan leik, hafi svæðið verið vel nýtt, það er að segja þá daga sem hægt var að skeita utandyra vegna veðurs í sumar. „Aðstaðan hefur ekki fengið andlitslyftingu síðan hún var opnuð fyrir 17 árum síðan. Við máluðum alla rampana og svo bættist einnig við nýtt 8 metra langt rail [pípa] þannig það er allt annað að sjá svæðið og gaman að sjá aftur líf þar,“ segir Eiki. Hann bætir við að hann sé með alls konar fleiri hugmyndir fyrir svæðið sem gaman væri að útfæra í framtíðinni.

Ný átta metra löng pípa - rail - á Háskólaparkinu.

Ferðamenn leggja leið sína í Brettaparkið

Þó þurrir og góðir skeitdagar í Háskólaparkinu hafi verið fáir í sumar hefur innanhússaðstaðan í Braggaparkinu verið vel nýtt, ekki síst af ferðamönnum. Eiki segir ánægjulegt að sjá hversu margir innlendir foreldrar hafi komið við með börn sín á ferðalagi um landið, en hægt er að lána bretti og hlaupahjól á staðnum. Þá slæðast líka alltaf einhverjir erlendir ferðamenn þangað inn.